Þrír þingmenn sem kjörnir voru á þing í kosningunum í lok nóvember þáðu launagreiðslur frá bæði ríki og Reykjavíkurborg um síðustu mánaðamót þar sem þingmennirnir eru allir sitjandi borgarfulltrúar í Reykjavík. Þingmennirnir hafa allir boðað afsögn úr borgarstjórn. Fjórði þingmaðurinn sem þáði launagreiðslur frá tveimur stöðum um mánaðamótin ætlar sér hins vegar að gegna áfram starfi bæjarfulltrúa í Hafnarfirði. Þar að auki fengu þessir þingmenn eins og allir kollegar þeirra tvöföld laun greidd frá Alþingi nú um mánaðamótin.
RÚV greinir frá þessu. Nýkjörnir þingmenn fengu allir greidd laun um síðustu mánaðamót þrátt fyrir að þing hafi enn ekki komið saman eftir kosningar. Raunar fengu allir þingmenn tvöfalda launagreiðslu þar sem Alþingi greiddi afturvirk laun fyrir desember og framvirk fyrir janúar. Þingfararkaup alþingismanna er um 1 og hálf milljón króna á mánuði.
Meðal nýkjörinna þingmanna eru borgarfulltrúarnir Dagur B. Eggertsson úr Samfylkingunni, Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir úr Flokki fólksins og Pawel Bartoszek varaborgarfulltrúi Viðreisnar.
Ekkert þeirra hefur sagt af sér sem borgarfulltrúar en hafa lýst því yfir að þau ætli sér að gera það. Auk tvöföldu launanna frá Alþingi um síðustu mánaðamót fengu þau full laun frá borginni. Kolbrún fékk um 1,7 milljón frá borginni. Dagur sem er formaður borgarráðs fékk um 1,6 milljónir. Pawel fékk síðan um 1,1 milljón.
Næsti borgarstjórnarfundur er eftir viku og talið er líklegt að þau muni öll þá segja af sér.
Rósa Guðbjartsdóttir nýkjörinn þingmaður Sjálfstæðisflokksins er formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar. Samkvæmt RÚV hefur Rósa sagst ætla að vera áfram í bæjarstjórn Hafnarfjarðar samhliða þingmennskunni. Það ber þó að ítreka að ólíkt því að vera borgarfulltrúi í Reykjavík er það ekki fullt starf að vera bæjarfulltrúi í Hafnarfirði en grunnlaunin eru um 380 þúsund krónur á mánuði.