Birtir voru fyrr í dag tveir úrskurðir innviðaráðuneytisins á vef Stjórnarráðsins. Annar var kveðinn upp í lok árs 2022 en hinn í upphafi árs 2023. Það kemur þó ekki fram hvers vegna úrskurðirnir voru ekki birtir fyrr en núna. Í báðum tilfellum er um að ræða úrskurð um að sveitarfélag hafi brotið lög með því að synja eldri borgurum um afslátt af fasteignagjöldum fyrir árið 2021 eingöngu á þeim grundvelli að þeir væru búsettir í frístundahúsum.
Nöfn sveitarfélaganna hafa verið afmáð úr úrskurðinum en í báðum tilfellum eru þau auðkennd með einum staf, Y. Einnig er í báðum tilfellum um að ræða synjun á afsláttum af fasteign sem skilgreind er sem sumarhús. Það er því ekki óhugsandi að um sé að ræða sama sveitarfélagið í báðum tilfellum þótt ekki sé hægt að fullyrða það.
Í öðru málinu a.m.k. er líklega um að ræða Bláskógabyggð. Í úrskurði ráðuneytisins í því máli kemur fram að sveitarstjórn hafi tekið fyrir á 286. fundi í ágúst 2021 beiðni um endurupptöku ákvörðunarinnar. Samkvæmt fundargerð 286. fundar sveitarstjórnar Bláskógabyggðar í ágúst 2021 var einmitt á fundinum tekin fyrir slík beiðni en henni var á endanum synjað. Í úrskurðinum er þó sagt að fundurinn hafi farið fram 5. ágúst en samkvæmt fundargerðinni fór hann fram 6. ágúst. Það er því ekki hægt að fullyrða að í því máli sé um að ræða Bláskógabyggð.
Í því máli sem tekið var fyrir á fundi sveitarstjórnar, mögulega í Bláskógabyggð, var um að ræða hjón sem fóru fram á afslátt af fasteignagjöldum fyrir árið 2021 í samræmi við reglur sveitarfélagsins um afslátt til öryrkja og fólks eldri en 67 ára. Sveitarfélagið synjaði beiðninni á þeim grundvelli að ekki væri hægt að skrá lögheimili í eigninni þar sem um væri að ræða frístundahús.
Hjónin vísuðu í kæru sinni til innviðaráðuneytisins til þess að lögheimili þeirra hefði verið í húsinu síðan 2010. Sögðu hjónin að húsið hefði alltaf verið ætlað til heilsársbúsetu en það væri háð geðþótta sveitarstjórnarmanna hvort það væri skráð sem íbúðarhúsnæði eða frístundahús.
Sveitarfélagið sagði í sínum andsvörum að afslátturinn væri fyrir tekjulitla elli- og örorkulífeyrisþega. Skilyrði fyrir afslættinum væri að viðkomandi byggi í íbúðarhúsnæði og ætti þar lögheimili en samkvæmt lögum verði að skrá lögheimili í íbúð en ekki megi skrá það í frístundahúsnæði eins og umræddri fasteign.
Ráðuneytið sagði í sinni niðurstöðu að þótt hjónunum væri óheimilt samkvæmt lögum að skrá lögheimili sitt í umræddu húsi þá hafi legið fyrir að þau væru skráð með lögheimili í sveitarfélaginu. Sveitarfélaginu hafi ekki verið heimilt samkvæmt lögum að synja umsókn hjónanna um lækkun fasteignagjalda á aðeins þeirri forsendu að þeim væri ómögulegt að skrá lögheimili á þeim stað þar sem þau hafi sannarlega búið. Lagði ráðuneytið því fyrir sveitarfélagið að taka umsókn hjónanna til skoðunar á sama hátt og það ætti að gera hjá öllum íbúum sem væru skráðir með lögheimili í sveitarfélaginu.
Málavextir eru mjög svipaðir í hinum úrskurðinum nema að þar er um að ræða konu en ekki hjón. Konunni var synjað um afsláttinn fyrir árið 2021 á þeim grundvelli að hún væri skráð með lögheimili í frístundahúsi.
Í kæru sinni til innviðaráðuneytisins vísaði konan til þess að hún hefði verið búsett í húsinu til tíu ára. Húsið væri í skipulögðu sumarhúsahverfi. Hún hafi greitt rúmar 160 þúsund krónur á ári í fasteignagjöld og telji það alvarlegt brot á jafnræði og mannréttindum að hún skyldi ekki eiga rétt á sömu afsláttarkjörum af fasteignagjöldum og aðrir 70 ára eldri borgarar í sveitarfélaginu.
Í andsvörum sínum vildi sveitarfélagið meina að það fæli í sér mismunun að veita konunni afslátt af fasteignagjöldum þar sem aðrir íbúar frístundahúsa í sveitarfélaginu hefðu ekki fengið slíka afslætti, á grundvelli aldurs eða örorku.
Niðurstaða ráðuneytisins í máli konunnar var nánast nákvæmlega eins orðuð og niðurstaða þess í máli hjónanna. Ráðuneytið sagði að konan væri skráð með lögheimili í sveitarfélaginu þótt hún gæti ekki skráð lögheimilið í frístundahúsinu. Sveitarfélaginu hafi ekki verið heimilt að synja konunni um afslátt af fasteignagjöldum á þeirri forsendu einni að henni væri ómögulegt að skrá lögheimili á þeim stað þar sem hún hafi sannarlega búið. Synjunin var því úrskurðuð ólögmæt og lagt var fyrir sveitarfélagið að taka umsókn konunnar fyrir að nýju.