Nicola Sturgeon, fyrrum forsætisráðherra Skotlands, hefur ákveðið að skilja við eiginmanninn, Peter Murrell. Tíðindin koma ekki á óvart en parið hefur ekki búið saman um skeið.
Murrell, sem er fyrrverandi framkvæmdastjóri Skoska þjóðarflokksins þar sem Sturgeon var leiðtogi, var handtekinn í apríl 2023 og síðar ákærður vegna gruns um að hann hafi misfarið með kosningaframlög til flokksins uppá 600 þúsund pund. Sturgeon var sjálf handtekin í tengslum við rannsókn málsins en hefur alfarið neitað að hafa gert nokkuð rangt. Hún er enn til rannsóknar vegna málsins en hefur ekki verið ákærð.
Sturgeon lét af embætti forsætisráðherra í febrúar 2023, eftir tæp níu ár í embætti, og bar við kulnun. Tveimur mánuðum síðar var eiginmaður hennar síðan handtekinn og hún svo í kjölfarið í júní sama ár. Hermt er að í kjölfar hneykslisins hafi Sturgeon flutt út af heimili hjónanna og því komi formlegur skilnaður fáum í opna skjöldu.
Sturgeon vinnur nú að því að skrifa ævisögu sína sem ráðgert er að komi út á þessu ári.