Um er að ræða viðbrögð við grein Aðalgeirs sem birtist í dag þar sem hann sakar Eflingu um að vera gervistéttarfélag.
Sólveig svarar Aðalgeir fullum hálsi í færslu á Facebook.
„Í grein á Vísi í dag segir framkvæmdastjóri SVEIT að við í Eflingu séum siðlaus og sakar okkur um að hafa ráðist inn á veitingastaðinn Finnsson í Kringlunni með skrílslátum og hávaða. Örvænting framkvæmdastjórans er orðin ansi mikil – og þá getur það gerst að menn fari að segja ósatt. Við í Eflingu glímum ekki við siðleysisvanda í réttindagæslu okkar fyrir verka- og láglaunafólk sem starfar á félagssvæði Eflingar – við erum meðlimir í alvöru stéttarfélagi sem starfar samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur frá 1938.“
Sólveig segir að lögum samkvæmt eigi menn rétt á að stofna stéttarfélög til að vinna sameiginlega að hagsmunamálum verkalýðsstéttarinnar og launtaka. Það geri Efling. SVEIT hafi hins vegar staðið fyrir stofnun gervistéttarfélagsins Virðingar bara til að vinna gegn hagsmunum launtaka. Það hljóti að vera einhvers konar hámark örvæntingarinnar að saka Eflingu um að vera gervistéttarfélag og Sólveigu um að vera siðlausa.
Hvað mótmælin um helgina hafi ekki verið um nein skrílslæti að ræða. Þar hafi frjálsir borgar sem njóta málfrelsis komið saman til að benda öðrum á að Finnsson sé að skrá starfsfólk í Virðingu til að lækka laun þeirra og skerða mikilvæg réttindi.
„Ég benti gestum og gangandi á þetta með því að nota gjallarhorn til að ná til sem flestra – ég beindi orðum mínum ekki sérstaklega að þeim sem ætluðu að borða á Finnsson, og ekkert okkar í Eflingu gerði nokkra tilraun til að fara inn á veitingastaðinn Finnsson, né reyndum að meina öðrum það. Öll okkar samskipti við öryggisverði og lögreglu voru friðsöm og vingjarnleg.“
Aðalgeir haldi því fram að Efling hafi ekkert í höndunum nema óljósan grun um að starfsfólk Finnsson hafi verið skráð í Virðingu. Það sé rangt enda hafi rekstraraðili veitingastaðarins sjálfur sagt við fjölmiðla fyrir jól að hann væri með starfmann í Virðingu. Hann tilkynnti svo fulltrúa vinnustaðareftirlits verkalýðshreyfingarinnar að hann ætlaði svo sannarlega að halda áfram að skrá fólk í félagið.
Sólveig ítrekar það mat Eflingar að Virðing geti ekki talist stéttarfélag. Um sé að ræða svikamillu atvinnurekenda til að koma fólki úr Eflingu og öðrum félögum sem tilheyra Starfsgreinasambandinu og Matvís. Þess í stað á að skrá starfsfólk í Virðingu til að hægt sé að greiða því samkvæmt kjarasamningi sem Efling hefði aldrei samþykkt.
„Okkur grunar sem sagt ekkert, við þekkjum staðreyndir málsins og erum að bregðast við þeim með öllum okkar aðgerðum.“
Aðalgeir hafi eins tekið fram að eigandi Finnsson, Óskar Finnsson, sé haldinn alvarlegum sjúkdómi. Þetta eigi að varpa fram þeirri mynd að Efling sé skipuð „misyndisfólki og drullusokkum“. Aðalgeir minnist þó ekkert á að samkvæmt þessum kjarasamningi Virðingar og SVEIT sé verið að skerða veikindarétt starfsfólks verulega sem og rétt þess til að vera heima með veikum börnum og rétt barnshafandi kvenna.
„Ólétt láglaunakona sem vinnur undir þessum ógeðslega „kjarasamningi“ þarf því að gera það upp við sig hvort að hún hafi efni á því að fara í mæðraskoðun eða ekki.“
Það sé ekki Efling sem sé að horfa fram hjá lögum landsins heldur SVEIT.
„Framkvæmdastjóri SVEIT kallar mig lygara. Ég hef engu logið – allt sem ég hef sagt og skrifað um SVEIT er byggt á ítarlegri skoðun okkar í Eflingu með aðstoð frá frábærum lögmönnum á fyrirliggjandi gögnum frá SVEIT og Virðingu. Það hefur ekki verið talið til marks um gott siðferði að kalla manneskju sem upplýsir um ljóta og löglausa hegðun lygara. Þvert á móti er það í siðaðra manna samfélagi talinn mikill ljóður á ráði manna.“
Aðalgeir hafi ítrekað haldið því fram að aðgerðir Eflingar miði að því að halda í iðgjöld frá félögum sem gætu viljað færa sig yfir til Virðingar. Þetta segir Sólveig fráleitan málflutning.
„Ég velti því fyrir mér hvort að með þessu þrástefi megi ekki skoða sálarlíf framkvæmdastjórans – hann getur einfaldlega ekki skilið að aðrar mótivasjónirknýii fólk áfram en sjúklegur áhugi á peningum. Hann getur ekki skilið að fyrir sumt fólk skiptir máli að gera sitt allra besta til að stöðva níðingsskap á verkafólki – ekki að gera sitt allra besta til að hafa af fólki laun og grafa undan öllum þeirra áunnu réttindum.“
Efling þurfi ekki að ljúga og svíkja til að ná árangri. Sé þess þörf mun félagið mæta með gjallarhornin í gulum vestum til að vernda hagsmuni verkafólks. Þar með talið þegar stofnað er gervistéttarfélag til að lækka kjör og svipta verkafólk mikilvægum réttindum.