Úkraínski herinn hefur ekki enn viðurkennt að Kurakhove sé fallinn í hendur Rússa. Sagan um orustuna um bæinn er skólabókardæmi um slæma ákvarðanatöku úkraínsku herstjórnarinnar og sýnir að Rússar hafa tekið upp taktík sem Úkraínumenn eiga eiginlega ekkert gott svar við.
Ivan Stupa, fyrrum liðsmaður leyniþjónustu úkraínska hersins og núverandi hernaðarsérfræðingur, sagði í samtali við Jótlandspóstinn að mörg vandamál hafi komið upp í tengslum við fall Kurakhove.
„Fyrir það fyrsta hafa Rússar gjörbreytt sóknaraðgerðum sínum. Ef þú manst eftir Bakhmut, þá héldu þeir sig bara við að sækja beint fram með málaliðum og refsiföngum. Varfærið mat er að þeir hafi misst um 20.000 menn þar. Ég ímynda mér að eftir það, hafi þeir sest við hringborðið og rætt málin og ákveðið að enduruppfinna taktína að umkringja,“ sagði hann.
Hann bætti við að margir úkraínskir bæir hafi fallið í hendur Rússa með þessari aðferð. Þetta virki, sé áhrifarík taktík og nú séu þeir að nota hana við Pokrovsk.
Hann benti á að auðvitað ráði Úkraínumenn því ekki hvað Rússar geri en þeir hafi sjálfir gert fjölda mistaka. Til dæmis séu aðgerðirnar í Kúrsk, í Rússlandi, í forgangi og þangað séu bestu skriðdrekarnir og önnur vopn frá Vesturlöndum send. Þar séu best þjálfuðu hermennirnir, þeir reyndustu og áköfustu. Annars staðar við víglínuna, skorti allt, sérstaklega athygli.