fbpx
Þriðjudagur 14.janúar 2025
Fréttir

Móðir Kolfinnu Eldeyjar: „Ég segi mína sögu því að samfélagið þarf að vakna“

Erla Dóra Magnúsdóttir, Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 13. janúar 2025 18:04

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Móðir Kolfinnu Eldeyjar Sigurðardóttur, sem var ráðin bani í september, segir að samfélagið þurfi að vakna. Barnsfaðir hennar, sem nú er ákærður fyrir að hafa banað dóttur þeirra, hafi ekki fengið þá hjálp sem hann þurfti því kerfið er brotið og stjórnvöld leyfðu því að gerast.

Ingibjörg Dagný Ingadóttir vekur athygli á þessu í átakanlegri færslu sem hún birti á Facebook í gær þar sem hún minnist dóttur sinnar og kallar eftir samfélagi þar sem fólk getur fengið þá hjálp sem það þarf.

Ingibjörg veitti DV góðfúslega leyfi til að fjalla um færsluna.

Lýsti upp hvert herbergi

„Ég veit ekki hvar ég á að byrja. Seinustu mánuðir hafa verið þeir lengstu og erfiðustu sem ég hef upplifað á ævinni. Það er engin leið fyrir mig að lýsa því með orðum. Þetta hefur verið súrrealískt. Ég átti frekar von á að fá loftstein í höfuðið en því sem gerðist í september. Í langan tíma beið ég bara eftir að vakna því þetta hlyti að vera martröð. En í stað þess hvern dag sem ég vaknaði þá beið mín martröð. Einhver allt önnur veröld sem ég þekkti ekki en var fleygt harkalega inn í. Aldrei á ævinni hef ég verið jafn mikið til í að vakna ekki á morgnana.

En ég hef neyðst til að vakna. Ekki bara í einu tilliti. Ég hef vaknað upp af þeim svefni sem við erum látin sofa sem samfélag.“

Ingibjörg segir að Kolfinna Eldey hafi lýst upp hvert herbergi bara með því að vera til. Allir elskuðu hana sem þekktu hana.

„Dóttir mín var góð, fyndin, vitur, skemmtileg, full af orku og hugmyndum, skapandi og frjáls. Hún var kærleiksrík, elskuleg, sjálfstæð, umhyggju- og hjálpsöm.“

Ingibjörg gæfi allt sem hún á og meira til að fá hana til baka enda skipti veraldlegar eigur engu í stóra samhenginu. Enginn hafi átt von á því sem gerðist í september.

Ekkert viðtal, engar skýringar, ekki neitt

Faðir Kolfinnu, Sigurður Fannar Þórsson, hafi allar götur verið stoð Ingibjargar og stytta. Hann glímdi þó við andleg veikindi og fékk ekki þá hjálp sem hann þurfti. Ingibjörg lýsir því hvernig heilbrigðiskerfið tók á móti honum þegar hann glímdi við alvarleg veikindi síðasta vor:

„Enginn sem þekkti Sigga ætlaði að trúa þessu. Því hann hefur ætíð verið kurteis, hjálpsamur, samviskusamur, örlátur og duglegur. Hann hefur alltaf verið mín stoð og stytta og minn besti vinur. Hann elskaði dóttur sína og gerði allt fyrir hana. Hún elskaði hann og þau áttu ætíð gott samband. Upplifun mín hefur því verið að ég missti meira en dóttur mína þann 15. september.

Eins og margir muna þá týndist hann seinasta vor og ég lét lýsa eftir honum. Hann hvarf sporlaust heiman frá sér í Grafarvogi, mætti ekki til vinnu og enginn náði í hann, sem var afar óvenjulegt. Þegar hann loks fannst á gangi í Kópavogi þá var liðið á þriðja sólarhring. Hann var orðinn uppþornaður og með sár á fótum eftir að hafa labbað stanslaust síðan á aðfaranótt mánudags. Hann hafði bara gengið um allan þann tíma í einhverju geðrofi, maníu eða einhverju sem ég kann ekki betur að nefna. En það var ljóst að það var eitthvað að. Hann fékk aðhlynningu í einhverjar klukkustundir á bráðamóttökunni áður en hann var útskrifaður.

Fljótlega eftir það hjálpa ég honum að sækja um hjálp á geðdeildinni. Hann fær einhverjar pillur frá læknum eins og þeim er von og vísa og eftir einhverra daga bið fær hann höfnun frá áfallateyminu. Ekkert viðtal, engar skýringar, ekki neitt.

Sumarið líður áfallalaust og hann nær að funkera, drekkir sér í vinnu eins og fólki með áföll á bakinu er gjarnt að gera, en ég sé það er alltaf eitthvað að plaga hann. Sunnudaginn örlagaríka fer hann inn í Hafnarfjörð til að dytta að bílnum sínum og erindast og hefur hana með því þau ætla að finna sér stað til að leika með dót sem við keyptum nokkrum dögum áður – bolta til að kasta á milli tveggja festispjalda með frönskum rennilás. En þau skila sér ekki úr þeirri ferð. Ég var búin að hringja margsinnis og það var mjög óvenjulegt að hann skyldi ekki svara mér í síma.

Upp úr níu um kvöldið fæ ég löggu og prest heim til mín og veröldin hrynur. Restin er sögð saga.“

Samfélagið þarf að vakna

Ingibjörg segist ekki vita hvað gerðist við Krýsuvíkurveg en veit í hjarta sínu að Sigurður tók ekki meðvitaða ákvörðun um að bana dóttur sinni. Sjálfur segist hann ekki muna hvað gerðist. Á þessum tíma hafi hann verið langt leiddur af þunglyndi.

„Við syrgjum bæði dóttur okkar. Ég segi mína sögu því að samfélagið þarf að vakna. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því hvernig kerfunum hefur verið leyft að koma fram við okkur. Hvernig orðræðunni hefur lengi verið stýrt í þá áttina að láta okkur berjast innbyrðis og valda sundrungu milli okkar. Hvernig fólk hefur verið stimplað klikkað, geðveikt og ruglað. Þannig var réttlætt að afskrifa það, loka inni og hlusta ekki á það. Á meðan þetta er ekkert annað en fólk sem hefur þurft að þola mismikið af misstórum áföllum. Og þau fá takmarkaða hjálp, ef einhverja. Það er eins og stefnan sé að hjálpin eigi að vera einhver lúxusvara sem bara ríka fólkið á að eiga kost á. Af hverju ætli það sé?

Pillur eru ekki lausn. Ekki frekar en hækjur. Rót vandans er enn til staðar. Hana þarf að finna og eiga við. Og hún liggur oftar en marga grunar í áföllum sem hefur aldrei verið unnið úr. Börn eiga ekki að þurfa að erfa áföll foreldra sinna.

Við erum öll á sömu skútunni. Við þurfum að vinna saman.“

Annað er bara ofbeldi

Ingibjörg segir að það undarlegasta í svona málum sé sú staðreynd að kerfið megi yfirhöfuð segja nei við fólk sem leitar eftir aðstoð. Að einhver geti sagt fólki að það sé ekki að upplifa næga vanlíðan eða sé ekki nógu veikt.

„Hver gefur öðrum rétt til að ákveða hvort ég þurfi hjálp eða ekki? Eina hlutverk stofnana á að vera að finna út úr því hvernig hjálp hentar í samráði við sjúklinginn, því hann er jú sérfræðingur í sinni eigin líðan. Annað er bara ofbeldi.“

Hún spyr hvort við getum ekki verið sammála um að vilja búa í samfélagi sem hjálpar fólki, frekar en í samfélagi þar sem sjálfsvígstíðni er há og morð og ofbeldi algengt.

„Hvernig væri að við færum að skapa samfélag sem setur fólk í forgang? Við erum ekki vélmenni. Við erum ekki byggð fyrir stanslausan þrældóm. Við erum manneskjur. Manneskjan er tilfinningavera. Hugur, sál og líkami er samtvinnaður í eitt. Við þurfum að fara að hugsa um þetta sem heild. Það þarf að umbylta kerfunum. Þau eru gömul og úrelt, byggð á gömlum hugmyndum um fólk af stjórnvöldum sem notuðu óttastjórnun til að halda fólki í skefjum. Hugsunin ber enn leifar af þessum ótta.

Við erum öll að sækjast eftir því sama – að líða vel.“

Það eina sem skiptir raunverulega máli

Kolfinna hafi ekki átt þetta skilið. Ingibjörg segir að hún hafi kennt móður sinni margt á stuttri ævi sem og öðrum. Hún hafi gefið frá sér ást og minnt fólkið sitt á hvað skiptir máli.

„Hver við öll erum. Við erum fyrst og fremst kærleiksverur. Við fæðumst með eiginleikann til að elska, og það er það eina sem barn biður um þegar það kemur í heiminn. Ást og umhyggja. Það á ekki nokkur manneskja að þurfa að jarða barnið sitt. Eða að þurfa að horfa á nafn þeirra ritað á kross á leiði. Það er svo rangt.“

Ingibjörg þakkar fyrir tímann sem hún fékk með Kolfinnu sem var sólargeisli í þessu lífi. Hún ætlar að heiðra virðingu dóttur sinnar með því að dreifa gleði og ást svo þegar Ingibjörg segir skilið við þessa tilveru geti mæðgurnar báðar verið stoltar.

„Það eina sem mun nokkurn tíma skipta raunverulegu máli í þessu lífi er það hvort þú hjálpaðir öðrum. Ef þú getur verið sólargeisli í lífi einhvers þá hefurðu náð markmiði lífsins. Þetta er ekki flóknara en það. Þegar þú skilur það þá skilurðu lífið. Eitthvað sem gert er af ást og samkennd er ávallt rétta ákvörðunin.
Ég vil þakka innilega öllu því yndislega fólki sem hefur hjálpað mér og stutt í gegnum þennan erfiða tíma. Það er alveg ótrúlega mikil samkennd og stuðningur sem ég hef fundið úr svo fjölmörgum áttum og fyrir það er ég ævinlega þakklát“

 

 

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

„Örvænting framkvæmdastjórans er orðin ansi mikil – og þá getur það gerst að menn fari að segja ósatt“

„Örvænting framkvæmdastjórans er orðin ansi mikil – og þá getur það gerst að menn fari að segja ósatt“
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Félagið Arnarland sé með Garðabæ í vasanum – „Það er verið að setja nýja Kringlu á pinkulítið svæði“

Félagið Arnarland sé með Garðabæ í vasanum – „Það er verið að setja nýja Kringlu á pinkulítið svæði“
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Íbúar í Seljahverfi og Kórahverfi að ærast vegna sprenginga – „Heimilið mitt nötraði“

Íbúar í Seljahverfi og Kórahverfi að ærast vegna sprenginga – „Heimilið mitt nötraði“
Fréttir
Í gær

Óánægja með svifasein viðbrögð Vegagerðarinnar við holu sem olli miklu tjóni – „Dekkið er handónýtt og ég veit ekki hvort það er meira tjón“

Óánægja með svifasein viðbrögð Vegagerðarinnar við holu sem olli miklu tjóni – „Dekkið er handónýtt og ég veit ekki hvort það er meira tjón“
Fréttir
Í gær

Sigurður G. mjög ósáttur við Sólveigu Önnu og Eflingu – „Þetta er þekkt taktík“

Sigurður G. mjög ósáttur við Sólveigu Önnu og Eflingu – „Þetta er þekkt taktík“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lögreglunni sigað á mótmæli Eflingar í Kringlunni

Lögreglunni sigað á mótmæli Eflingar í Kringlunni
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kristinn ómyrkur í máli – „Það er okkar sök og nú erum við að súpa seyðið af því“

Kristinn ómyrkur í máli – „Það er okkar sök og nú erum við að súpa seyðið af því“