fbpx
Þriðjudagur 14.janúar 2025
Fréttir

Íslendingar sólgnir í ódýrar vörur frá Kína – Eyrnalokkar innihéldu þúsundfalt leyfilegt magn af krabbameinsvaldandi efni

Ritstjórn DV
Mánudaginn 13. janúar 2025 21:02

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslendingar tóku kínverska netverslunarrisanum Temu fagnandi þegar hann hóf að markaðssetja sig til Íslendinga á síðasta ári. Þar með bættist Temu í hóp kínverskra netverslana sem njóta gríðarlegra vinsælda hér á landi á borð við Shein og AliExpress. En þessar vörur uppfylla síður þær kröfur sem Evrópa gerir til neytendavöru og í mörgum tilvikum geta vörurnar beinlínis verið hættulegar heilsu fólks.

Kastljós fjallaði um málið í kvöld þar sem athygli var vakin á því hversu skaðlegar vörurnar frá þessum verslunum geta verið, þó að þær séu hræódýrar.

Þegar neytandi kaupir vöru af þessum verslunum er hann að kaupa beint frá framleiðanda og þar með þurfa verslanirnar ekki að fullnægja kröfum Evrópu um öryggi og vottanir. Neytendasamtök um alla Evrópu hafa tekið stikkprufur af vörum frá þessum verslunum og komist að því að þær innihalda eiturefni sem eru langt innan heilsusamlegra marka.

Krabbameinsvaldandi vörur

Kastljós ræddi við Sunnevu Halldórsdóttur sem er meistaranemi í líf- og læknavísindum. Hún heldur úti Instagram-síðunni Efnasúpan þar sem hún tekur fyrir þau skaðlegu efni sem leynast í vörum frá kínverskum netverslunum.

„Þetta eru meira og minna manngerð efni. Þetta í rauninni snýst um magn og í hverju þau eru. Hvort þetta séu efni sem við erum að komast í daglega snertingu við í fatnaði, leikföngum, boxum og döllum í eldhúsinu. Það getur verið nánast hvað sem er. Þessi efni hafa mörg verið tengd við skaðleg áhrif. Allt frá því að vera hormónaraskandi og trufla starfsemi innkirtlakerfisins yfir í að vera krabbameinsvaldandi.“

Sunneva segir efnin eins hafa verið tengd við fæðingargalla, áhrif á ónæmiskerfið, auknar líkur á sykursýki II sem og fjölda annarra sjúkdóma.

Umhverfisstofnun Íslands hefur varað neytendur sérstaklega við ákveðnum vöruflokkum á Temu. Hér á landi eru ekki til tæki til að mæla magn eiturefna en Kastljós vísaði til skoðunar norska ríkisútvarpsins á eyrnalokkum sem reyndust innihalda efnið kadmíum. Leyfileg mörk kadmíums í Noregi og á Íslandi eru 0,01%. Eyrnalokkarnir innihéldu 26%, eða 2600 sinnum meira en leyfilegt er. Því með var mælt með því að eyrnalokkunum yrði fargað og þeir flokkaðir sem hættulegur úrgangur. Samkvæmt Umhverfisstofnun getur kadmíum haft eituráhrif í of miklu magni og meðal annars aukið líkur á krabbameini, ófrjósemi og fæðingargöllum. Efnið getur eins safnast fyrir í nýrum og valdið nýrnavandamálum, skaðað lungu við háan styrk og aukið líkur á beinþynningu.

Sunneva tók fram að margar ungar stelpur panta mikið af fatnaði og snyrtivörum frá þessum síðum og eins hafa Íslendingar verslað vörur fyrir ung börn. Ein vara skipti kannski ekki öllu fyrir heilsuna en þegar um margar er að ræða geta samanlögð áhrif verið skaðleg.

„Ég las einhvers staðar að flík frá Shein sé að meðaltali notuð sjö sinnum áður en henni er hent. Þetta er frekar stutt ending.“

Rusl endar í ruslinu

Fataverkefni Rauða kross Íslands neitar að selja þessar vörur. Guðbjörg Rut Pálmadóttir, teymisstjóri verkefnisins, segir í samtali við Kastljós að Rauði krossinn sé að drukkna úr vörum frá þessum verslunum, vörum sem eru jafnvel enn í upprunalegum pakkningum og því ónotaðar. Hún segir fólk að fara heldur með þessar vörur til Sorpu. Hún biður fólk að hugsa sig um tvisvar áður en það verslar frá þessum verslunum.

„Og hugsa bara hvar þetta endar allt saman að lokum af því að þegar þú kaupir rusl, þá endar það sem rusl. Það er bara þannig, því miður.“

Sunneva tekur fram að fólk þurfi að hugsa hvernig á að nota vöruna því það er ekkert sem tryggir að hún er örugg. „Hver er svo að nota vöruna? Er það ungabarn sem sleikir vöruna allan daginn? Og getum við treyst því úr hvaða plasti varan er? Hvað inniheldur hún? Eða er þetta fatnaður? Ef fólk er að kaupa fatnað, þá allavega þvo hann áður en hann er notaður.“

Kastljós ræddi líka við Valdimar Sigurðsson sem er prófessor í viðskiptafræði og neytendasálfræði. Valdimar segir að umræddar vefsíður afli sér viðskipta með því að spila með fólk. Svo sem með því að láta vefsíður sínar virka eins og tölvuleik eða fjárhættuspil. Eins eru notuð slagorð á borð við : Verslaður eins og milljarðamæringur. Að ógleymdum svo samfélagsmiðlunum sem margir eru háðir. Þessar verslanir viti vel hvað þær eru að gera.

Meira eftirlit með íslenskum endursöluaðilum

Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir að Temu sé frekar nýlega komið inn á íslenskan markað og því ekki hægt að tala um að verslunin sé farin að bitna á íslenskum verslunum. En íslenskir aðilar séu meðvitaðir um að það gæti gerst í framtíðinni. Þróunin sé farin að vekja áhyggjur.

Það séu svo dæmi um að íslenskar verslanir selji vörur frá þessum kínversku netverslunum.

„Þeir sem að markaðssetja vörur, þó þær séu framleiddar í Kína, hér á landi. Þeir í raun og veru ábyrgjast í fyrsta lagi að vörurnar séu í lagi og hæfar til markaðssetningar og notkunar hér á landi, og taka líka í ýmsu tilliti á sig svokallað skaðsemisábyrgð. Til dæmis ef einhver verður fyrir líkamstjóni vegna notkunar á einhverri vöru sem er framleidd í Kína en hefur verið flutt til og markaðssett hér á landi af íslenskri verslun, þá er það íslenska verslunin sem í raun og veru mun bera ábyrgðina þegar uppi er staðið.“

Það sé fyrir það fyrsta tollurinn sem fylgist með innflutningi á þessum vörum. Ef þetta eru vörur sem er bannað að taka í notkun hér þá hefur tollurinn úrræði til að stöðva tollafgreiðslu en eftir að varan er komin inn í vöruhús þá eru það ýmsar stofnanir sem fara með markaðseftirlit.

„Það er til dæmis Húsnæðis- og mannvirkjastofnun þegar kemur að raftækjum og rafföngum. Það getur verið Umhverfisstofnun þegar það kemur að efnavöru eins og snyrtivörum og fleira þess háttar. Eða jafnvel Matvælastofnun eða Lyfjastofnun ef svo ber undir.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ókunnugur maður kýldi Svandísi í andlitið – „Vaknaði þegar sjúkraflutningamennirnir voru að reyna að reisa mig á fætur“

Ókunnugur maður kýldi Svandísi í andlitið – „Vaknaði þegar sjúkraflutningamennirnir voru að reyna að reisa mig á fætur“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tónlistarsjóður veitir 77 milljónum til 74 verkefna í fyrri úthlutun ársins 2025

Tónlistarsjóður veitir 77 milljónum til 74 verkefna í fyrri úthlutun ársins 2025
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kölluð út á mesta forgangi eftir neyðarboð frá fiskibát

Kölluð út á mesta forgangi eftir neyðarboð frá fiskibát
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vilhjálmur hugsi eftir reynslu sína af heilbrigðiskerfinu – „75.284 krónur, sirka andvirði einnar vandaðrar þvottavélar“

Vilhjálmur hugsi eftir reynslu sína af heilbrigðiskerfinu – „75.284 krónur, sirka andvirði einnar vandaðrar þvottavélar“