Þóra Björg Clausen hefur sagt upp störfum sem dagskrárstjóri Stöðvar 2 eftir tíu ára starf. Þetta kemur fram í frétt Vísis, sem er í eigu móðurfélagsins Sýnar eins og Stöð 2, en þar er vísað í færslu Þóru til vina og vandamanna.
„Þessi ákvörðun var síður en svo auðveld, en það er mín sannfæring að þetta sé rétt ákvörðun fyrir mig á þessum tímamótum. Maður minn, hvað það hefur verið gaman!“ skrifar Þóra í tilkynningunni.
Þóra er þriðji starfsmaðurinn sem kvatt hefur Sýn undanfarna daga. Í síðustu viku var greint frá því að Eva Georgs Ásudóttir væri hætt sem sjónvarpsstjóri Stöðvar 2 eftir tæplega tveggja áratuga starf. Skömmu síðar greindi Sigrún Ósk Kristjánsdóttir, ein þekktasta sjónvarpskona stöðvarinnar, frá því að hún hefði ákveðið að hætta störfum sem dagskrárgerðarmaður.