Vilhjálmur Þorsteinsson, fjárfestir, segist ekki bjartsýnn um að ný ríkisstjórn nái að snúa við einkavæðingarferlinu sem er hafið í heilbrigðiskerfinu. Hann lýsir í færslu á Facebook góðri reynslu af einkarekinni heilbrigðisþjónustu en veltir fyrir sér hvort eitthvað sé því til fyrirstöðu að veita slíka þjónustu í hinu opinbera heilbrigðiskerfi þar sem þjónustan er í þágu almennings en ekki í hagnaðarskyni.
„Fyrir rúmum þremur árum fann ég fyrir smá hjartsláttaróreglu og leitaði á heilsugæslustöð (notaði trixið með að panta tíma hjá hjúkrunarfræðingi, Heilsuvera tók ekki í mál að ég fengi tíma hjá lækni). Þar fékk ég tilvísun í hjartaómskoðun hjá einkafyrirtækinu Hjartamiðstöðinni ehf. í Kópavogi. Þangað fór ég og fékk fína þjónustu. Fyrirtækið hefur á að skipa glæsilegri móttöku með snertiskjá fyrir innritun, tveimur móttökuriturum, stórum biðstofum, veglegri kaffistofu starfsfólks o.s.frv. Hjartalæknirinn vildi fá mig aftur í tékk eftir þrjú ár og sú skoðun fór fram í vikunni sem leið.“
Aftur mætti Vilhjálmur í þessa flottu móttöku og fékk úrvalsþjónustu. Hjúkrunarfræðingur framkvæmdi hjartaómum og annar tók hjartalínurit. Loks ræddi hann í lækni þar sem farið var yfir niðurstöðurnar. Vilhjálmur mætti fyrst klukkan 10 í móttökuna og gekk út klukkan 10:45.
„En. Sem sagt. Þessi heimsókn til einkafyrirtækisins kostaði 75.284 krónur, sirka andvirði einnar vandaðrar þvottavélar. Af þeirri upphæð greiddi ég sjálfur 35.824 krónur og skattborgarar (Sjúkratryggingar) 39.460 krónur.“
Vilhjálmur segist hafa haldið að heilbrigðiskerfið á Íslandi væri að mestu ókeypis fyrir notendur þess og þó að hann hafi aðeins setið uppi með að greiða tæpar 36 þúsund, þá liggi fyrir að það geti reynst mörgum þungur biti þó það sé viðráðanlegt fyrir hann sjálfan.
„Í öðru lagi eru 75.284 krónur assgoti mikið fyrir þjónustu sem tekur 45 mínútur – og ég gat ekki betur séð en að viðskiptavinir væru þarna á færibandi allan daginn.“
Vilhjálmur segir þá spurningu vakna hvort það væri ekki ódýrara að veita þessa einföldu þjónustu hjá Landspítalanum eða á heilsugæslustöðvum. Þannig væri hægt að draga úr stærðargráðunni og þar með lækka kostnað. Varla geti verið hagkvæmt að vera með allar þessar sjálfstæðu rekstrareiningar úti um allt með tilheyrandi yfirbyggingu.
„Með sínum eigin móttökuriturum, tölvukerfum, bókhaldi, þrifaþjónustu og allri annarri yfirbyggingu.
En er ég bjartsýnn á að þessi samkeppnislausa sókn í fé heilsutæpra samborgara og almennra skattborgara muni eitthvað breytast þótt komin sé ný ríkisstjórn? Nei, sérhagsmunirnir af svona einkarekstri munu áfram trompa almannahagsmunina – þeir eru of sterkir í þessu tilviki eins og mörgum öðrum.“