Maður hefur verið ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás og fíkniefnabrot, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 14. ágúst árið 2022, utandyra á ónefndum stað, kastað glerflösku í höfuð manns með þeim afleiðingum að brotaþolinn hlaut 2,5 cm langan skurð ofan og aftan við vinstra eyra.
Maðurinn er jafnframt sakaður um að hafa á sama tíma haft í vörslu sinni 0,27 g af kókaíni sem fannst við öryggisleit á honum.
Héraðssaksóknari krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Ekki er minnst á einkaréttarkröfu um miskabætur í ákærunni.
Málið verður þingfest við Héraðsdóm Reykjavíkur þann 21. janúar næstkomandi.