fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
Fréttir

Meinta gervistéttarfélagið Virðing rýfur loks þögnina – Segja samning sinn ekki koma Eflingu við

Ritstjórn DV
Laugardaginn 11. janúar 2025 19:31

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stjórn stéttarfélagsins umdeilda, Virðingar, hefur nú sent frá sér yfirlýsingu en til þessa hefur lítið heyrst frá félaginu frá því að Efling hóf að gagnrýna kjarasamning sem Virðing gerði við Samtök félaga á veitingamarkaði (SVEIT).

Virðing mótmælir fullyrðingum Eflingar um félagið og segir þær ósannar. „Virðing stéttarfélag er stofnað af starfsmönnum í veitingahúsum. Þeir félagsmenn Virðingar sem stofnuðu félagið höfðu það frelsi að mega stofna sitt eigið stéttarfélag. Stjórn Eflingar og formanni þess kemur það þess vegna ekkert við þó að þetta fólk vilji frekar stofna sitt eigið stéttarfélag og vilji ekki vera í Eflingu. Þá hefur Efling heldur engan einkarétt á því að semja við vinnuveitendur eða fyrir hönd þeirra sem hjá þeim vinna.“

Efling hafi sýnt í verki að félagið hafi engan áhuga á að semja við SVEIT. Sá kjarasamningur sem Efling hefur gagnrýnt sé gerður af fúsum og frjálsum vilja undir formerkjum félagafrelsis sem sé stjórnarskrárvarinn. Hann veiti í sumum atriðum betri kjör en kjarasamningur Eflingar, þó svo í sumum tilvikum sé hann lakari.

Stjórn Virðingar frábiður sér að vera bendluð við lögbrot og ítrekar að félagsmenn hafa og eiga rétt til að stofna stéttarfélög og gera þá samninga sem þeir eru tilbúnir að vinna eftir.

Lengra dagvinnutímabil

Umdeildustu ákvæði kjarasamningsins varða dagvinnutímabil en samkvæmt samningi Virðingar og SVEIT telst dagvinnutímabil vera tíminn frá 08:00-20:00 virka daga og 08:00-16:00 á laugardögum. Eftir 8 tíma vinnu á dagvinnutímabili skal koma til álagsgreiðslna. Vinnutími fyrir fulla dagvinnu er 173,33 að meðaltali yfir þriggja mánaða tímabil.

Samkvæmt samningi Eflingar og Samtaka atvinnulífsins er dagvinna frá 07:55-17:99 mánudaga til föstudaga eða frá 07:30-16:35.

Hjá Virðingu er greitt með eftirfarandi hætti fyrir vinnu utan dagvinnutímabils:

  • 31% álag frá 20:00-24:00 mánudaga til föstudaga
  • 31% álag frá 16:00-24:00 á laugardögum
  • 31% álag frá 08:00-24:00 á sunnudögum
  • 45% álag frá 00:00-08:00 alla daga.

Hjá Eflingu er það:

  • 33% álag frá 17:00-24:00 mánudaga til föstudaga.
  • 45% álag á laugardögum og sunnudögum
  • 45% álag frá 00:00-08:00 alla daga

Séu einungis staðnar vaktir á tímabilinu frá 16:00-08:00 svo og á laugar- og sunnudögum skal greiða jafnaðarálag sem nemur 42% á unna stund.

Eins hefur Efling gagnrýnt eigna- og fjölskyldutengsl milli SVEIT og Virðingar.

Sjá einnig:

Mikil eigna- og fjölskyldutengsl formanns SVEIT við stjórnarkonu Virðingar – Tengjast Kampavínsfjelaginu og Fiskmarkaðinum

Nafntogaðir veitingamenn á meðal þeirra sem Efling hefur blásið í herlúðra gegn

Efling er ekki eina félagið sem hefur gagnrýnt kjarasamninginn. Meðal annars hefur Alþýðusamband Íslands tekið undir gagnrýnina og sagt nafngift Virðingar vera ósvífni. Ekki sé hægt að samþykkja að um stéttarfélag sé að ræða.

Sjá einnig: Heimasíða Virðingar dularfull og illfinnanleg á netinu – „Við munum grípa til allra þeirra ráða til þess að stöðva þetta“

Virðing hefur til þessa haldið sig frá umræðunni. DV gekk á eftir framkvæmdastjóra Virðingar, Valdimar Leó Friðrikssyni, í desember en hann svaraði ekki ítrekuðum símtölum. Eins fengust engin svör í gegnum það netfang sem var gefið upp á heimasíðu félagsins. Því má segja að yfirlýsing félagsins í dag hafi rofið þögnina. Leiða má líkum að því að Virðing hafi sent frá sér yfirlýsinguna í dag til að bregðast við mótmælum Eflingar sem fóru fram í Kringlunni í hádeginu fyrir utan veitingastaðinn Finnson Bistro en Efling segist hafa heimildir fyrir því að starfsfólk þar hafi verið skráð í Virðingu.

Efling sendi frá sér tilkynningu eftir mótmælin þar sem ítrekað er að kjarasamningur Virðingar og SVEIT sé gervikjarasamningur sem brjóti gegn íslenskum lögum sem og alþjóðlegum reglum og tilskipunum. Þar sé verkafólk rænt samningsbundnum réttindum til að lækka laun þeirra. Efling tekur fram að mikill meirihluti veitingamanna sem Efling hefur haft samband við undanfarnar vikur hafi upplýst um að þeir muni fylgja kjarasamningi Eflingar og Samtaka atvinnulífsins. Skorar Efling á þá veitingamenn sem hafa ekki brugðist við áskorunum þeirra að gera það hið fyrsta.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“
Fréttir
Í gær

Enn slá Rússar met hvað varðar mannfall á vígvellinum

Enn slá Rússar met hvað varðar mannfall á vígvellinum