Lögregla var kölluð til vegna mótmæla Eflingar við veitingastaðinn Finnson Bistro, en mótmælin fóru fram í hádeginu í Kringlunni. Vísir greinir frá.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, ræddi við hádegisfréttir Bylgjunnar þar sem hún sagði að mótmælin væru vegna gervistéttarfélagsins Virðingar. Um sé að ræða félag sem var stofnað af atvinnurekendum til að hafa af fólki laun. Sólveig sagði Eflingu hafa fengið veður af því að starfsfólk Finnson hafi verið skráð í Virðingu.
Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði, SVEIT, sendu frá sér tilkynningu vegna mótmælanna og sögðu að hringt hafi verið í lögreglu þar sem fulltrúar Eflingar hafi truflað ró gesta og starfsemi staðarins. SVEIT segir aðgerðir Eflingar lögbrot og ljóst að Efling ætli sér að keyra veitingastaði í þrot og svipta fjölda fólks lífsviðurværi. SVEIT ítrekaði það sem samtökin hafa áður haldið fram – að kjarasamningur SVEIT og Virðingar feli í sér kjarabætur. Samningurinn tryggi starfsfólki hærri dagvinnulaun og bætt laun í samanburði við önnur Norðurlönd. SVEIT heldur því fram að Efling gangi fram með offorsi gegn nýju stéttarfélagi til að missa ekki iðgjöld.
Rétt er að geta þess að Efling hefur ítrekað hafnað þessum fullyrðingum. Efling segir kjarasamninginn þvert á móti lækka laun og auk þess svipta starfsfólk ýmsum réttindum sem því voru áður tryggð í kjarasamningi Eflingar og Samtaka atvinnulífsins.
Efling hefur meðal annars bent á að samkvæmt kjarasamningi SVEIT og Virðingar lengist dagvinnutímabil gríðarlega eða frá 08-20. Þar að auki fær starfsfólk greitt dagvinnutaxta til klukkan 16 á laugardögum í stað helgartaxta. Vaktaálög eru eins lægri en hjá Eflingu, kjör ungmenna lækkuð, orlofsréttindi skert, uppsagnarfrestur styttur, veikindaréttur skertur, hátíðardögum fækkað, réttur barnshafandi kvenna skertur og áfram mætti telja. Eins er um engan sjúkrasjóð að ræða og ekki boðið upp á neina styrki fyrir starfsfólk líkt og tíðkast hjá flestum stéttarfélögum.
Sólveig Anna gaf í samtali við mbl.is lítið fyrir yfirlýsingu SVEIT: „Það er ömurlegt að vera vitni að því að þegar fólk opinberar það með hætti sem þessum að það eina sem það virðist valda mótvægi við aðra sé ágirnd í fé.“
Sólveig segir þá menn ekki í tengslum við raunveruleikann sem halda því að þeir geti brotið kjarasamninga án afleiðinga.