Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst fyrr í dag neyðarboð frá litlum fiskibát sem þá var staddur afar nærri landi, norðarlega í mynni Ólafsfjarðar og hafði fengið í skrúfuna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbjörg.
Björgunarsveitin Tindar á Ólafsfirði og björgunarskipið Sigurvin á Siglufirði voru kölluð út á mesta forgangi því um tíma leit út fyrir að bátinn myndi reka í strand. Eins var aðgerðarstjórn virkjuð á Akureyri.
Björgunarmenn frá Tindum héldu út á tveimur björgunarþotum (jetski) og komu taug um borð í bátinn. Skipverji hafði þá varpað akkeri sem náði haldi á botni svo ekki var lengur yfirvofandi hætta á strandi. Báturinn var um 280 metra frá landi og ljóst að illa hefði getað farið. Skömmu síðar kom björgunarskipið Sigurvin á vettvang og tók bátinn í tog og dró inn til hafnar á Ólafsfirði.