Kona sem sat undir stýri bíls í Kansas-borg í Missouri-fylki hefur vakið heimsathygli fyrir viðbrögð sín eftir að hafa lent í kröppum dansi í umferðinni. Hitastigið í borginni var um -12 gráður þennan dag og skyndilega lenti umrædd kona í fljúgandi hálku. Hún missti stjórn á bílnum sem byrjaði að renna út af veginum. Rétt er að geta þess að ekki var mikil hætta í gangi í ljósi þess að bíllinn var ekki á mikilli ferð og rann í átt að grasbala. Því hefur það vakið talsverða athygli að konan kaus að stökkva út úr bílnum og láta hann gossa.
„Þetta var það fyrsta sem mér datt í hug,“ er haft eftir konunni en atvikið hefur verið til umfjöllunar á helstu fjölmiðlum heims, meðal annars CNN.