fbpx
Föstudagur 10.janúar 2025
Fréttir

Valgeir var á milli lífs og dauða 13 ára – „Ég man ekki eftir ferðinni með Óttari“

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 10. janúar 2025 20:30

Valgeir Ólason Mynd: Aðsend

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Valgeir Ólason, gæða og öryggisstjóri hjá Íslenskum aðalverktökum, hefur lifað með sykursyki í fjóra áratugi. Í gær, þriðjudaginn 9. janúar, hélt hann upp á að 40 ár voru frá greiningu hans með sykursýki týpu 1. 

Valgeir var milli lífs og dauða þá 13 ára gamall, en er í dag án allra fylgikvilla sykursýkinnar. Hann er 53 ára, giftur og faðir 11 ára drengs. Hann segir hreyfingu lykilinn að góðri heilsu  og nauðsynlegt að þekkja eigin líkama og viðbrögð við næringu og hreyfingu ásamt lyfjagjöf.

Valgeir og eiginkonan, Sara Bergmann Friðriksdóttir
Mynd: Aðsend

Valgeir rifjar í gær upp sögu sína af sykursýki týpu 1. Í samtali við DV segir hann meira um sykursýki í sumum fjölskyldum en öðrum, hjá honum sé hún nánast óþekkt bæði móður- og föður hans megin, og sonur hans er ekki með sykursýki.

„Ég var milli lífs og dauða þann 9. janúar 1985, þá 13 ára. Deginum áður, þann 8. janúar 1985 fór mamma með mig til læknis á Sjúkrahús Suðurnesja, ég hafði verið veikur yfir hátíðarnar, og heilsunni fór sífellt versnandi. Læknirinn sem tók á móti okkur sagði strax að ég væri með sykursýki, en vildi ekki kalla út dömurnar á rannsókn til að taka blóðprufu, þar sem þetta var eftir hádegi og rannsókn lokaði um hádegi.“

Síðar um daginn hringdi móðir Valgeirs aftur á spítalann, sem þá hét Sjúkrahús Suðurnesja, en í dag Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS), og nefnir hann að þetta var fyrir tíma Neyðarlínunnar 112. Valgeir var þá farinn að kasta upp, og sami læknir og hafði skoðað hann fyrr um daginn sagði hann vera að fá flensu, móðir Valgeirs ætti að fylgjast vel með honum og hringja á heilsugæsluna ef honum versnaði.

Yfirlæknir hélt Valgeiri á lífi í 20 mínútna forgangsakstri

„Mamma vakir yfir mér alla nóttina, undir morgun er farið að draga verulega af mér og ég að verða rænulítill. Mamma hringir á spítalann, símastúlkan segir henni að læknirinn sem var að sinna mér sé í fríi þennan dag og sykursýkispróf ekki tekin á miðvikudögum, en segir henni að hún geti komið með mig og reynt að fá blóðprufu. Mamma dröslar mér út í bíl og dregur mig svo meðvitundarlítinn/lausan inn á spítala. Þar hittir hún fyrir hjúkrunarkonuna á rannsókn sem líst ekki á blikuna og hleypur til og sækir lækni.“

Læknirinn var Óttar Guðmundsson, sem bestur er þekktur sem geðlæknir í dag, en hann var á þessum tíma yfirlæknir á sjúkrahúsinu.

„Hann veður í málin, blóðsykurinn er mældur 54 og ég kominn með sýrueitrun í blóð þarna og hann hefur samband við Landspítalann ásamt því að kalla til sjúkrabíl og gefa mér insúlín.

Óttar kemur svo sjálfur með mér í sjúkrabílnum, en mamma þurfti að fara heim, þar sem Elín María og Áslaug [yngri systur Valgeirs] voru heima fjögurra og sex ára gamlar og pabbi á sjónum,“ segir Valgeir og bætir að sjúkraflutningamennirnir  og heiðursmennirnir Lárus Kristinsson og Gísli Viðar heitnir komu eins og eldibrandar og fluttu hann til Reykjavíkur.

„Ég hef það fyrir satt að ferðin frá Skólaveginum í Keflavík og inn á Landspítala á Hringbraut tók sléttar 20 mínútur á þessum dimma janúardegi, ferð sem Google Maps segir að taki 45-50 mínútur í dag. Það verður vart leikið eftir í dag!

Óttar hélt svo í mér lífi á leiðinni standandi yfir mér, það hefur eitthvað gengið á í bílnum.

Á móti mér tók annar læknir sem skipti sköpum í að halda mér á lífi, það var Ástráður B. Hreiðarsson læknir á göngudeild sykursjúkra, hann varð síðar yfirlæknir deildarinnar.“

Flutningurinn á Valgeiri var skráður í Logbók brunavarna Suðurnesja.
Mynd: Facebook

Þurfti að læra að vera eigin læknir

Valgeir dvaldi í nokkra daga á gjörgæsludeild, og man hann ekki hversu lengi.

„Ástráður reyndist mér einstaklega vel, og hvatti mig áfram og sá til þess að ég lærði allt sem þurfti til að vera minn eigin læknir eins og hann orðaði það sjálfur. Hann benti mér réttilega á að til að líða vel með sykursýki, þurfi að huga að sjúkdómnum allan sólarhringinn alla daga og ég gæti ekki verið með lækni mér við hlið öllum stundum, og yrði því að vera eigin doktor.“

Feðgarnir Valgeir og Davíð Smári þegar sonurinn var ungur
Mynd: Aðsend
Feðgarnir í dag
Mynd: Aðsend

Æfði sig með því að sprauta í appelsínur

Valgeir segir að móðir hans síðan tekið við, farið með honum gegnum allan lærdóminn og gaf honum ekki möguleika á að slá slöku við, að læra allt sem þurfti.

„Ég var hræddur við nálar á þessum tíma, en byrjaði strax að sprauta mig sjálfur á spítalanum og vildi ekki vera öðrum háður með það. Var látinn æfa mig að sprauta í appelsínur. Á þessum tíma dró maður upp insúlín úr lyfjaglasi og sprautaði í vöðva tvisvar á sólarhring, og þar með var ákveðið hvenær og hversu mikið maður mátti borða næstu 12 tímana. Þá mældi maður blóðsykur með því að pissa í glas og dýfa strimil í glasið og bera saman við litakóða,“ segir Valgeir.

„Í dag er ég með sykurnema í handlegg sem mælir öllum stundum og er tengdur við app í símanum. Þá er ég með snjall insúlín penna sem lærir á skammtastærðir, margir eru með insúlíndælu, ég fer líklega þangað fljótlega.

Gervigreind er svo farin að ráðleggja varðandi lyfjagjöf Framfarirnar eru gríðarlegar og sér ekki fyrir endann á þeim.“

Mynd: Facebook

Nýbúinn í skoðun án athugasemda

Valgeir segir að í dag eigi einstaklingar möguleika á mun betra lífi með sjúkdóminn heldur en fyrir nokkrum áratugum. Á þessum tímamótum er hann ánægður með að vera án fylgikvilla.

„Ég er nýbúinn að fá skoðun án athugasemda, augnbotnar góðir, taugar í fótum góðar, hjarta- og æðakerfi í góðu standi og almennt góð heilsa, það er ekki sjálfgefið! Ég get gert allt sem ég vil og nýt þess að stunda útiveru og líkamsrækt. Þeir sem þekkja mig vita að ég geri „stundum“ vel við mig í mat og drykk.

En lykillinn er HREYFINGIN! Ég hef alltaf stundað mikla hreyfingu frá því ég var lítill strákur, einnig er ég með góða rútínu á svefni, hreyfingu og matmálstímum. Ég held að hreyfingin umfram annað hafi gert mest fyrir mig.“

Vill miðla reynslu sinni áfram 

Valgeir segir að ástæðan fyrir því að hann tekur saman þessar hugrenningar sé tvíþætt: 

„Annars vegar að halda utan um minningar og þakka fyrir þeim sem björguðu mér, og hins vegar að hjálpa ungu fólki sem greinist með þennan sjúkdóm að sjá ljósið.

Árið 1985 voru skilaboðin að ég ætti að passa mig og ekki stunda íþróttir svo ég færi ekki í sykurfall, en ég vill segja ungu fólki að læra inn á eigin líkama og nota hreyfingu til að bæta lífsgæðin! Ég hef nokkrum sinnum gegnum árin farið inn á heimili þar sem unglingar með sykursýki hafa átt erfitt með að hafa stjórn á sjúkdómnum og átt við þau spjall að beiðni foreldra. Það er alltaf betra að feta leið sem maður sér að annar hefur farið á undan.“

Valgeir hefur nokkrum hlaupið í Reykjavíkurmaraþoninu
Mynd: Facebook

Valgeir hefur nokkrum sinnum hlaupið 10 km í Reykjavíkurmaraþoni og safnað pening fyrir Dropann, styrktarfélag barna með sykursýki sem hefur starfað síðan 1995. Höfuðmarkmið félagsins er að stuðla að velferð barna og unglinga með sykursýki.

„Ástráður læknir var hikandi að hleypa mér heim daginn sem ég var útskrifaður eftir hálfan mánuð á spítalanum, kom á stofugang að meta mig. Ég var órólegur og alltaf að líta á klukkuna, doktorinn spurði hvort ég væri að missa af einhverju? Já sagði ég, ég er að verða of seinn á körfuboltaæfingu! Hann hélt ég væri að stríða honum.

Ég fór beinustu leið á æfingu, við spiluðum á heilan völl seinni helminginn af æfingunni, ég man að Valli Ingimundar þjálfari stoppaði leikinn og tók mig út af, hefur líklega ekki litist á blikuna en ég var eins og liðið lík á vellinum.“

Valgeir þakkar móður sinni sérstaklega fyrir: „Án hennar væri ég ekki á lífi! Hún sá líka til þess að ég væri ábyrgur á unglingsárunum og lét mig halda dagbók um mataræði og lyfjagjöf ásamt niðurstöðu mælinga fyrstu árin. Það lagði grunninn að því að þekkja eigin líkama og viðbrögð við næringu og hreyfingu ásamt lyfjagjöf. Þá vill ég senda hlýja kveðju til Lalla á sjúkrabílnum og Gísla Viðars heitinna, en þeir eru báðir fallnir frá fyrir þó nokkru síðan.

Hugsanlega sér þetta einhver af þeirra fólki.

Þeir Óttar Guðmundsson og Ástráður B. Hreiðarsson héldu svo sannarlega í mér lífinu með þekkingu sinni og kunnáttu… einstakir menn! Ég man ekki eftir ferðinni með Óttari, en kynntist Ástráði betur, hann var og er sjálfsagt enn mjög hlýr og góður maður sem var eins og áttaviti fyrir mig.“

Valgeir með afastrákinn Óskar Glóa
Mynd: Aðsend
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Samgöngustofa og 66°Norður vekja athygli á mikilvægi endurskinsmerkja

Samgöngustofa og 66°Norður vekja athygli á mikilvægi endurskinsmerkja
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Sigurjón skammar Moggann – „Framsetning Morgunblaðsins í þessu máli er engin tilviljun“

Sigurjón skammar Moggann – „Framsetning Morgunblaðsins í þessu máli er engin tilviljun“
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum
Rútuslys á Suðurlandi
Fréttir
Í gær

Gróa lætur Íslandspóst heyra það – „Þetta finnst mér algjörlega óviðunandi þjónusta“ 

Gróa lætur Íslandspóst heyra það – „Þetta finnst mér algjörlega óviðunandi þjónusta“ 
Fréttir
Í gær

Stórhættulegur maður með andfélagslega persónuleikaröskun grunaður um fjölda brota – Sýnir enga iðrun og finnur ekki fyrir sektarkennd

Stórhættulegur maður með andfélagslega persónuleikaröskun grunaður um fjölda brota – Sýnir enga iðrun og finnur ekki fyrir sektarkennd