Slökkviliðsmenn hafa lagt nótt við dag í baráttu sinni við eldana og loga þeir enn á fimm stöðum. Í frétt BBC kemur fram að borið hafi á þjófnuðum í borginni þar sem óprúttnir aðilar reyna að nýta sér þá neyð sem komin er upp. Hafa tuttugu einstaklingar nú þegar verið handteknir í tengslum við slík mál. Borgarstjórinn, Karen Bass, hefur varað við því að hart verði tekið á þjófum í borginni.
Lögregla handtók í gær einstakling sem grunaður er um að hafa kveikt einn af þeim eldum sem loga viljandi. Rannsókn á því máli stendur yfir.
Slökkviliðsmönnum hefur gengið misvel að ráða við þá elda sem loga og hefur sá stærsti, sem kenndur er við Palisades, nú skilið eftir sig eyðileggingu sem nær yfir rúmlega átta þúsund hektara svæði. Eiga slökkviliðsmenn enn langt í land með að ná tökum á honum.
Í umfjöllun BBC kemur fram að veðurspá fyrir daginn sé óhagstæð og búast megi við vindasömu veðri áfram. Þá verður áfram þurrt í veðri og er útlit fyrir að staðan verði þannig áfram næstu daga sem gæti gert slökkvistarf erfitt.