Stéttarfélagið Efling hefur sent frá sér tilkynningu þar sem staðhæft er að SVEIT, Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði, hafi komið inn klásúlum í samning sinn við stéttarfélagið Virðingu, um að starfsfólk veitingahúsa sæti rafrænni vöktun.
„SVEIT hyggst njósna um starfsfólk veitingahúsa,“ segir í fyrirsögn tilkynningarinnar og kemur fram að Efling hefur sent inn kvörtun til Persónuverndar vegna þessa. Tilkynningin er eftirfarandi:
Með ákvæðum í ráðningarsamningum sem byggja á gervikjarasamningi SVEIT, Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði, og gervistéttarfélagsins Virðingar er brotið gegn persónuverndarlögum og reglugerð Evrópusambandsins um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga. Í umræddum ákvæðum er tilgreint að veitingahúsaeigendur megi njósna um starfsfólk sitt með hljóð- og myndbandsupptökum, hvar sem er og hvenær sem er, nema rétt þegar fólk bregður sér á klósett eða það skiptir um föt.
Í ráðningarsamningsformi sem gefið hefur verið út og byggir á umræddum kjarasamningi, sem er hvorki raunverulegur né lögmætur, segir: „Myndbands og hljóðupptökur geta átt sér stað á
vinnustað, upptökur eru heimilar á öllum stöðum fyrir utan salerni og búningsaðstöðu“.
Eflingu stéttarfélagi ber skylda til að vernda réttindi félagsfólks síns, sem margt hvert starfar á veitingastöðum. Það á rétt á að starfa samkvæmt gildandi og lögmætum kjarasamningi Eflingar og Samtaka atvinnulífsins en ekki gervikjarasamningi SVEIT og Virðingar. Því hafa MAGNA lögmenn fyrir hönd Eflingar sent Persónuvernd kvörtun vegna þessa ákvæðis um rafræna
vöktun í ráðningarsamningunum, sem saminn er einhliða af atvinnurekendum.
Það er mat MAGNA lögmanna að umrædd ákvæði brjóti gegn persónuverndarlögum og einnig gegn reglugerð Evrópusambandsins. Þannig geti vinnsla persónuupplýsinga ekki fengið stoð í
samþykki starfsmanns sem fengið sé með því að viðkomandi skrifi undir ráðningarsamning. Er það sökum þess að í fyrsta lagi er ekki gert ráð fyrir því í samningunum að starfsmenn geti
hafnað rafrænni vöktun. Þá er verulega ólíklegt að þeir geti það yfir höfuð, sökum þess mikla aðstöðumunar sem er á milli þeirra og vinnuveitanda. Auk þess hefur atvinnurekandi ekki
lögmæta hagsmuni af því að taka starfsfólk upp á öllum stöðum utan salernis og búningsaðstöðu. Í ofanálag er mjög erfitt að rökstyðja að vinnuveitandi hafi lögmæta hagsmuni af því að taka starfsmenn upp í hljóði, hvað þá að þeir hagsmunir geti verið ríkari en einkalífsréttur starfsfólks.
Efling hefur sent fyrirtækjum í SVEIT áskoranir um að láta af þeim brotum sem felast í umræddum gervikjarasamningi. Mikill fjöldi fyrirtækja hefur svarað þeim áskorunum og staðfest
að þau muni ekki notast við gervikjarasamninginn. Eftir standa þó nokkur fyrirtæki sem ekki hafa svarað erindi Eflingar og verður því að líta svo á að þau séu, eða ætli sér, að notast við
gervikjarasamninginn, og þar með að stunda hinar ólögmætu njósnir á eigin starfsfólki.
Við það mun Efling ekki una og hefur því, sem fyrr segir, sent kvörtun til Persónuverndar vegna málsins. Persónunjósnirnar eru aðeins einn angi af hinum ólögmæta gervikjarasamningi og mun Efling beita þeim meðölum sem þurfa þykir til að verja hagsmuni síns félagsfólks gegn brotum SVEIT og gervistéttarfélagsins Virðingar.“