Í grein sinni lýsti Guðni áhyggjum sínum af stöðu mála á landamærunum og skoraði á Þorbjörgu að bregðast við. Vísaði hann til dæmis í varnaðarorð Úlfars Lúðvíkssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum og yfirmann landamæraeftirlitsins á Keflavíkurflugvelli, sem talaði til dæmis um að sum flugfélög komist upp með að gefa yfirvöldum ekki upp farþegalista sína. Þannig kæmu 7% allra flugfarþega í Keflavík til landsins undir nafnleynd.
„Hvers vegna koma 7% flugfarþega um Keflavík með nafnleynd? Svaraðu því, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra. Lokaðu þessu gati strax,“ sagði hann.
Sjá einnig: Guðni rifjar upp samtal:„Við hlustuðum ekki frekar en fyrri daginn“ – Segir lýsingar Úlfars vera sláandi
Í grein sinni í Morgunblaðinu reynir Þorbjörg að svara Guðna og tekur hún undir að það sé áhyggjuefni að 7% farþega komi til landsins undir nafnleynd.
„Þetta er áhyggjuefni og því miður ekki nýtt vandamál. Þar hengir fyrrverandi ráðherrann þó bakara fyrir smið með því að benda á Schengen en ekki þá ríkisstjórn sem hann studdi dyggilega sl. sjö ár,“ segir hún og bætir við að Guðni virðist hafa gleymt sér við skrifin og ekki tekið eftir umfjöllun um aðgerðir nýrrar ríkisstjórnar.
„Fyrsta frumvarp sem ég lagði fram á þingi sem dómsmálaráðherra varðar aðgang stjórnvalda að farþegaupplýsingum, einmitt og akkúrat til að taka á þessum vanda. Ný lög munu skylda öll flugfélög til að veita farþegaupplýsingar. Og ekki stendur Schengen í vegi fyrir að málið verði afgreitt,“ segir Þorbjörg og tekur fram að hún sé hrifin af áhuga Guðna á landamærunum en hyggur að hann geti nú andað léttar.
„Ný ríkisstjórn er nefnilega ekki einungis meðvituð um þann vanda sem við er að etja heldur hefur burði til að bregðast við. Kannski gildir það sama um okkur í Viðreisn og Framsókn forðum: árangur áfram og ekkert stopp. Verkleysi kyrrsetustjórnarinnar er okkur fjarri skapi,“ segir hún.
Þorbjörg bætir við að ríkisstjórnin hafi þegar hafist handa við að fjölga í lögregluliði landsins og styrkja löggjöf gagnvart skipulögðum glæpahópum. Þannig hafi hún til dæmis mælt fyrir frumvarpi um endurheimt af ávinningi af afbrotum.
Hún vísar svo í orð Guðna og segir:
„Sofandi flýtur landið okkar að feigðarósi. Eiturlyfin flæða inn og enn er lítið gert, segir lögreglustjórinn“ og vísar þar í lögreglustjóra Suðurnesja. „Þótt hinn nýi dómsmálaráðherra hafi bæði menntun og starfsreynslu talar hann eins og þessi þróun sé óhjákvæmileg,“ segir fyrrverandi landbúnaðarráðherra.“
Þorbjörg segir að skipulagðir brotahópar leiti þangað sem best er að athafna sig.
„Af þeirri ástæðu hefur áhersla mín þessa fyrstu mánuði eftir að ég tók við sem dómsmálaráðherra verið á að efla lögreglu og styrkja hana til að tryggja öryggi fólks í landinu. Það er hægt að bregðast við þessari þróun af þunga. Og það gerir þessi ríkisstjórn. Ég mun þannig leggja fram frumvarp í haust um auknar heimildir lögreglu til að taka á skipulögðum brotum.“
Þorbjörg nefnir síðan í grein sinni frumvarp hennar um afturköllun alþjóðlegrar verndar hjá þeim sem gerast sekir um alvarleg afbrot og bendir á að það sé nú til meðferðar á Alþingi.
„Í því felast skilaboð um að menn sem hér hafa fengið vernd viti að þessum rétti fylgir ábyrgð. Ég hef sömuleiðis sett af stað vinnu við að betrumbæta regluverk um dvalarleyfi. Þá er væntanlegt frumvarp í haust til að koma í veg fyrir það ófremdarástand sem ríkir í fangelsum þar sem nú er vistað fólk sem á að vísa úr landi, einfaldlega vegna þess að enginn annar staður er til. Með brottfararstöð væri sú ömurlega staða leyst, en þar verður hægt að vista fólk sem hefur fengið synjun um alþjóðlega vernd en er ósamvinnufúst um að fara af landi. Raunar er það svo að íslensk stjórnvöld hafa frá 2008 verið skuldbundin til að tryggja slíka brottfararstöð skv. Schengen. Ísland er einhverra hluta vegna eina Schengen-ríkið sem ekki hefur neitt slíkt úrræði. Svar síðustu ríkisstjórnar var þess í stað að vista hælisleitendur í fangelsi. Brottfararstöð er augljóslega mannúðlegri leið en að fylla fangelsi landsins af fólki sem ekki hefur verið dæmt fyrir neinn glæp,“ segir hún.
Þorbjörg segir síðan að ríkisstjórnin hyggist afnema svokallaða 18 mánaða reglu sem gerir að verkum að útlendingar sem sótt hafa um alþjóðlega vernd fái sjálfkrafa dvalarleyfi af þeirri ástæðu einni að málsmeðferð hefur dregist.
„Þetta mun spara heilmikla fjármuni en áfram tryggja réttláta málsmeðferð. Hver og einn umsækjandi fær mál sitt skoðað eftir sem áður. Fyrir vikið mun ríkisstjórnin um leið setja metnað í að búa þeim sem hér fá alþjóðlega vernd tækifæri til betra lífs, að börn fái kennslu við hæfi og fólk fái atvinnutækifæri. Það á að vera markmiðið að geta boðið fólki raunverulega þátttöku í samfélagi okkar,“ segir hún.
Loks gerir hún áhyggjur Guðna af flæði fíkniefna til landsins að umtalsefni en Guðni sagði að lítið væri gert í þeim málum.
„Þetta er rangt. Fréttir af efnum sem gerð hafa verið upptæk benda því miður til að markaður fyrir fíkniefni sé töluverður. Fréttirnar bera á sama tíma með sér að lögregla nær árangri við að gera upptæk efni sem hingað hafa verið flutt. Ég get hins vegar ekki stöðvað fíkniefnainnflutning með einu pennastriki þótt framsóknarmenn haldi það. Fíkniefnalaust Ísland árið 2000 var sakleysisleg hugsun sem skilaði litlum árangri. Það þarf að ganga í mál en ekki rífast við samstarfsflokka eins og áður tíðkaðist – eða rífast nú í nýrri ríkisstjórn í sorgarúrvinnslu yfir örlögum Framsóknar. Ríkisstjórnin mun áfram vinna að úrbótum til að tryggja öryggi fólksins í landinu. Guðni getur varið tíma sínum í að leysa vanda Framsóknarflokksins. Ég tel mig vita að forysta flokksins sé hæstánægð með það. Og Miðflokkurinn reyndar líka.“