Þetta kemur fram í frétt Morgunblaðsins í dag en þar kemur fram að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafi sent ábendingu til kirkjugarðanna vegna þessa.
Haft er eftir Ingvari Stefánssyni, framkvæmdastjóra Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma, að hann hafi fullan skilning á þessum óþægindum en bendir á að í síðustu viku hafi þurft að nota varaofn sem er ekki jafn góður og sá sem yfirleitt er notaður.
„Það er orðið mjög brýnt að ákvörðun verði tekin sem fyrst um að ný bálstofa með fullnægjandi mengunarvörnum verði byggð,“ segir hann og bætir við að staðið hafi til í um 20 ár að líkbrennslan færi í Gufunes. Ekki verði farið í frekari fjárfestingu þar nema rekstur sé tryggður og afstaða ráðuneytisins liggi fyrir.
Í frétt Morgunblaðsins er einnig rætt við Ásgeir Björnsson hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur sem segir að verið sé að endurskoða starfsleyfi bálstofu Kirkjugarða Reykjavíkur. Bendir hann á að núverandi ofnar séu ekki með hreinsibúnað eins og tíðkast í nágrannalöndum.