Yfirskattanefnd hefur fellt úr gildi ákvörðun tollgæslustjóra, sem er undirmaður ríkisskattstjóra, æðsta yfirmanns Skattsins, um að synja beiðni björgunarsveitar um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa á tilteknum búnaði fyrir hús sem sveitin hafði ætlað sér að nota sem færanlega stjórnstöð í björgunarútköllum. Sendi nefndin málið aftur til tollgæslustjóra til nýrrar afgreiðslu.
Slysavarnafélagið Landsbjörg kærði ákvörðunina fyrir hönd björgunarsveitarinnar til nefndarinnar í september síðastliðnum. Hafði björgunarsveitin óskað eftir endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna kaupa á 20 feta gámahúsi með krókheysisgrind og merkingum, loftnets- og tölvubúnaði og tilheyrandi raflagnaefni fyrir húsið, sem sveitin hugðist eins og áður segir nota sem færanlega stjórnstöð í björgunarútköllum.
Í kæru Landsbjargar kom fram að eingöngu ætti að nota búnaðinn til björgunarstarfa en með búnaðinum ætti að vera hægt að flytja gámahúsið á milli staða og nota það sem stjórnstöð í útköllum. Benti Landsbjörg á að virðisaukaskattur hefði áður verið felldur niður á sambærilegum búnaði.
Í andsvörum tollgæslustjóra kom meðal annars fram að í upphaflegri umsókn um endurgreiðslu frá björgunarsveitinni hafi verið sótt um vegna búnaðar sem teljist ekki vera björgunarbúnaður í skilningi tollalaga og geti því ekki uppfyllt ákvæði laga um endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna slíks búnaðar. Um væri að ræða meðal annars gám, tölvur og tengibúnað sem geti ekki með nokkru móti talist vera björgunarbúnaður.
Í andsvörum Landsbjargar við þessum andsvörum tollgæslustjóra kom fram að búnaðurinn yrði eingöngu notaður á vettvangi fyrir svæðisstjórn þegar erfið björgunar-, leitar- eða almannavarnaútköll komi upp. Stjórnvöld hafi lagt mikla áherslu á uppbyggingu aðgerðastjórnstöðva í hverju lögregluumdæmi, svo sem sjá megi í stefnu í almanna- og öryggismálum. Samhliða þessu hafi viðbragðsaðilar á landinu unnið að uppbyggingu á aðstöðu til vettvangsstjórnar.
Landsbjörg sagði að ákveðið hafi verið að byggja upp færanlega stjórnstöð fyrir umrædda björgunarsveit með því að innrétta gámahús sem hægt væri að flytja með vörubíl á vettvang. Eins og annar björgunarbúnaður sé hin færanlega stjórnstöð vel merkt sem slík. Stjórnstöðin sé upphituð og búin nauðsynlegum tölvu- og fjarskiptabúnaði svo að hægt sé að sinna vettvangsstjórnun þaðan við ólíkar og oft erfiðar aðstæður. Búnaðurinn sé hluti af stjórnstöðinni og ekki notaður annars staðar, þ.e. hann sé festur niður þar. Stjórnstöðvar af þessu tagi gegni lykilhlutverki þegar björgunarsveitir sinni erfiðum útköllum.
Landsbjörg sagði enn fremur engan veginn hægt að taka undir það með tollgæslustjóra að umræddur búnaður væri skrifstofubúnaður. Búnaðurinn væri nauðsynlegur og órjúfanlegur þáttur í björgunaraðgerðum og jafn mikilvægur hluti þeirra og til dæmis sérbúin ökutæki, snjóbílar, snjósleðar og bátar. Þeir liðsmenn björgunarsveita sem komi að vinnu í stjórnstöð gegni jafn mikilvægu hlutverki og þeir sem annist beinar björgunar- og leitaraðgerðir á aðgerðasvæðum og allt vinni það fólk sem sinni þessum hlutverkum saman sem ein heild. Búnaðurinn falli undir fyrri skilgreiningar tollayfirvalda á björgunarbúnaði sem búnaði sem notaður sé á vettvangi við björgunarstörf.
Landsbjörg benti enn fremur á að árið 2023 hefði beiðni um endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna kaupa á sams konar búnaði, til að nota í færanlegri stjórnstöð, verið samþykkt. Í kjölfarið staðfesti tollgæslustjóri þessa mismunandi málsmeðferð við yfirskattanefnd og tjáði nefndinni að beinast lægi við að hann fengi umsóknina senda aftur til afgreiðslu og samþykktar.
Nefndin tók þó málið til úrskurðar.
Yfirskattanefnd fellst ekki á það með tollgæslustjóra að merkingar á búnaðinum geti ekki verið hluti af beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts þar sem sérstaklega sé tekið fram í reglugerð um tollfríðindi að björgunarbúnaður verði að vera merktur sérstaklega með nafni landssamtaka björgunarsveita eða viðkomandi björgunarsveitar til að unnt sé að veita heimild til fríðinda eins og endurgreiðslu á virðisaukaskatti.
Segir nefndin ekkert hafa komið fram til að draga í efa þann málatilbúnað Landsbjargar að sannarlega hafi verið um að ræða björgunarbúnað og ítrekar að áður hafi verið fallist á sambærilega umsókn.
Synjun tollgæslustjóra á synjun beiðni björgunarsveitarinnar um endurgreiðslu virðisaukaskatts, vegna kaupa á umræddum búnaði, var því felld úr gildi og málið sent til hans til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.