Landsréttur hefur fellt úr gildi gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóm Reykjaness yfir manni sem vísa á frá landinu. Maðurinn kom hingað til lands á síðasta ári þrátt fyrir að vera í 10 ára endurkomubanni frá Schengen-svæðinu og var brottvísun hans frá landinu staðfest í desember síðastliðnum en hefur ekki enn komið til framkvæmda en maðurinn hafði verið í haldi alveg síðan hann kom til landsins í september 2024. Maðurinn á baki fjölda refsidóma bæði hér á landi og erlendis.
Héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði manninn þann 23. apríl síðastliðinn í áframhaldandi gæsluvarðhald, að beiðni Lögreglustjórans á Suðurnesjum, til 7. maí næstkomandi. Síðast þegar Landsréttur staðfesti gæsluvarðhald yfir manninum tók rétturinn það fram að ef staða málsins fær ekki að breytast og það myndi skýrast hvenær hægt yrði að vísa manninum úr landi væri ekki loku fyrir það skotið að beita yrði vægari úrræðum með tilliti til meðalhófs, þegar kæmi að því að gæsluvarðhaldið rynni út. Í þessum nýjasta úrskurði réttarins í málinu segir að þar sem staða málsins sé sú sama og í ljósi þess hversu lengi maðurinn hefði setið í gæsluvarðhaldi sé ekki annað hægt en að fella það úr gildi. Landsréttur varð heldur ekki við þeirri varakröfu Lögreglustjórans á Suðurnesjum að maðurinn yrði úrskurðaður í farbann og gert að bera á sér staðsetningarbúnað.
Málavextir eru raktir nánar í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness sem fylgir með úrskurði Landsréttar. Maðurinn kom til landsins 28. september á síðasta ári og var handtekinn á Keflavíkurflugvelli fyrir að framvísa fölsuðum skilríkjum. Maðurinn játaði að skilríkin væru fölsuð og að hann hefði smyglað sér frá Alsír en það hefur verið afmáð úr úrskurðinum í hvaða löndum hann kom við á leið sinni til Íslands. Kom fljótlega í ljós að maðurinn sætti endurkomubanni á Schengen-svæðinu til ársins 2034.
Lögregla aflaði upplýsinga frá ónefndu landi en þar hafði manninum verið synjað um vernd og hann fluttur úr landi til Alsír með umrætt endurkomubann í farteskinu. Einnig kom upp úr krafsinu að maðurinn hafði hlotið átta refsidóma en í hvaða landi það var hefur verið afmáð úr úrskurðinum. Meðal brota sem maðurinn hefur hlotið dóma fyrir eru fíkniefnalagabrot, þjófnað, alvarlegar líkamsárásir og innbrot. Manninum var synjað um inngöngu í landið og óskaði þá eftir alþjóðlegri vernd. Útlendingastofnun hafnaði því í október og kærunefnd útlendingamála staðfesti þá niðurstöðu í desember. Brottvísun mannsins úr landi er enn í vinnslu hjá ríkislögreglustjóra og óljóst hvenær hún mun koma til framkvæmda.
Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum kemur fram að maðurinn hafi notað tvö mismunandi nöfn á ferðum sínum og hann sé talinn ógn við allsherjarreglu, öryggi ríkisins og almannahagsmuni og sé það mat byggt á dómsniðurstöðu í hinu ónefnda landi þaðan sem manninum var vísað burt og hann margdæmdur fyrir ýmis brot. Töfin á brottvísun mannsins er skýrð með því að erfiðlega hafi gengið að útvega honum ferðaskiklríki frá yfirvöldum í Alsír svo hægt sé að flytja hann þangað.
Maðurinn var fyrst úrskurðaður í gæsluvarðhald í september sem rann á endanum út í nóvember en þá hóf hann þegar afplánun ótilgreinds dóms hér á landi en málsnúmer hefur verið afmáð úr úrskurði héraðsdóms og því ekki fyllilega ljóst um hvað sá dómur snerist en afplánun dómsins lauk í desember og þá var maðurinn strax úrskurðaður í gæsluvarðhald og hefur sætt því þar til nú.