Þetta segir Anna Kristín í samtali við Morgunblaðið í dag.
Nokkuð hefur verið rætt um stöðu mála á íslenskum leigubílamarkaði að undanförnu og vakti til dæmis athygli þegar greint var frá því hjá RÚV að kaffistofa leigubílstjóra á Keflavíkurflugvelli væri nú notuð sem bænahús af erlendum leigubílstjórum.
Anna Kristín rifjar upp að hún og annar bílstjóri hefðu í Covid-faraldrinum keypt eldhúsáhöld í skúrinn, til dæmis pottum, hnífapörum, glösum og diskumm
„Síðan í framhaldi af því, þegar þeir byrja þarna, þá vaða þeir þarna í að nota okkar eigur og við segjum: „Ókei, þeir eru bara bílstjórar eins og við og þeir mega það alveg.“ Nema svo byrja þeir að stela hlutunum okkar þarna. Það er til dæmis búið að stela grjónapotti vinkonu minnar, eggjasuðutækinu mínu, öllum diskunum, glösunum og hnífapörunum okkar,“ segir Anna við Morgunblaðið í dag.
Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að þeir leigubílstjórar sem ekki taka þátt í bænahaldinu forðist skúrinn enda líði þeim eins og þeir séu ekki velkomnir. En það er líka fleira, segir Anna Kristín.
„Við komumst ekki á klósettið vegna þess að gólfið inni á klósetti er rennandi blautt, því að þeir eru með lappirnar uppi í vöskunum að þrífa þær fyrir bænahald. Það er bara viðbjóður þarna inni,“ hefur Morgunblaðið eftir henni.
Í aðskildri frétt Morgunblaðsins í dag er einnig rætt við Guðmund Daða Rúnarsson, framkvæmdastjóra viðskipta og þróunar hjá Isavia, sem segir að Isavia vilji að öllum líði vel sem stunda atvinnustarfsemi á svæðinu, óháð uppruna eða trú. Verið sé að skoða það að fá einstaklinga sem eru sérfróðir í fjölmenningarsamfélögum að borðinu til að fá leiðsögn svo hægt sé að bæta stöðuna.