Eins og endranær á þessum tíma vikunnar var nóg að gera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt. Alls voru 110 mál skráð í kerfi í hennar en meðal þeirra var að einstaklingur var rændur í miðborg Reykjavíkur en tveir af þeim sem voru handteknir vegna málsins eru undir lögaldri.
Í tilkynningu lögreglunnar kemur fram að maður var handtekinn fyrir að fara ekki að fyrirmælum lögreglu í miðbænum. Hann gistir nú í fangaklefa en lögregla þurfti að hafa ítrekuð afskipti af honum yfir daginn.
Fjórir voru síðan handteknir eftir að einstaklingur var rændur í miðbænum. Tveir af þeim enduðu í fangaklefa en hinir voru undir lögaldri svo barnavernd var kölluð til og tók ákvörðun um framhaldið en hver hún var er ekki getið í tilkynningunni.
Í Kópavogi var maður handtekinn en hann er grunaður um fjölmarga þjófnaði úr verslunum. Hann gistir fangageymslu.
Tilkynnt var um líkamsárás í Breiðholti í Reykjavík. Tveir eru grunaðir um árásina en enginn var handtekinn. Málið er, samkvæmt tilkynningunni, í rannsókn.
Loks var tilkynnt um unglinga á léttum bifhjólum að valda ama í Mosfellsbæ. Þeir létu sig hverfa þegar lögregla kom á staðinn.
Einnig var nokkuð eins og venjulega um útköll vegna ölvunar og neyslu fíkniefna, þar á meðal aksturs.