Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar lætur enn á ný Hallgrím Helgason rithöfund heyra það. Tilefnið er grein eftir Hallgrím sem birt er í Heimildinni en Sólveig Anna segir Hallgrím í greininni halda því ranglega fram að hann hafi sprengt „woke-ið“ á Íslandi. Þvert á móti sé það hún sjálf sem beri ábyrgð á því.
Nokkra athygli vakti fyrr í þessum mánuði þegar Sólveig Anna lýsti því yfir í umræðum í þætti á Samstöðinni, þar sem hún og Hallgrímur voru meðal gesta, að „woke“ væri ömurleg hugmyndafræði sem ætti varla við á Íslandi. Hallgrímur sagðist í þættinum eiga bágt með að trúa þessum orðum Sólveigar Önnu og að „woke“ snerist í sínum huga um almenn mannréttindi fyrir alla hópa. Sólveig Anna svaraði Hallgrími fullum hálsi og sagði „woke“ snúast um að telja sig betri en annað fólk. Líkti Hallgrímur málflutningi hennar við orðfæri Donald Trump en dró orð sín fljótlega til baka.
Sólveig Anna urðar yfir woke-ið og Hallgrím í hressilegum orðaskiptum – „Woke er ömurlegt“
Í kjölfarið hófust miklar umræður um hugtakið. Hægri menn hrósuðu hinni vinstri sinnuðu Sólveigu Önnu í hástert fyrir að ganga að „woke“ dauðu á Íslandi. Aðrir bentu hins vegar á að það skorti á almennilega skilgreiningu á hugtakinu og að það ætti fyrst og fremst við í bandarísku samhengi en ekki íslensku.
Hallgrímur svaraði Sólveigu Önnu með ítarlegri hætti í Facebook-færslu og stóð þá enn með hugtakinu „woke“ en sagði málið snúast fyrst og fremst um mannréttindi.
Hallgrímur gerir upp woke-deilurnar við Sólveigu Önnu – „Ég sá þessar vendingar ekki fyrir“
Í nýjasta tölublaði Heimildarinnar sem kom út í gær skrifar Hallgrímur grein þar sem honum verður enn tíðrætt um þessa umræðu sem og mannréttindi og það bakslag sem hefur orðið í réttindabaráttu minnihlutahópa ekki síst hinsegin fólks. Í upphafi greinarinnar skrifar Hallgrímur:
„Nú eru næstum þrjár vikur frá því að ég sprengdi óvart woke-tunnuna íslensku með einu orði (sem reyndar var orðið „Trump“) í umræðum á Samstöðinni. Ekki óraði mig fyrir því sem skeði í kjölfarið. Umræða um woke og ekki woke – en mest þó hvað woke er – blossaði upp á flestum miðlum og stendur enn í sumum. Í fyrstu var ég sorrí yfir þessu öllu, fannst ég skulda þjóð minni nokkra tapaða vinnudaga, en sé nú að samfélagið þurfti líklega á þessari óviljandi bombu að halda. Svo margt var ósagt, óuppgert og óljóst.“
Í færslu á Facebook-síðu sinni gagnrýnir Sólveig Anna þessi orð Hallgríms harðlega og segir hann hafa eignað sér það sem hún beri ábyrgð á:
„Hann nefnir ekki konuna sem olli woke-siðfárinu á nafn og stelur af henni glæpnum til að upphefja sjálfan sig.“
Sólveig Anna sakar því næst Hallgrím um að hafa með greininni sýnt af sér hræsni, tvískinnung og karlrembu:
„Er ekki magnað að sjá yfirgengilegan tvískinnung og magnaða hræsni woke-istans Hallgríms? Honum tekst í grein sem að hann líkur með tilvitnun í „Áfram stelpur“, í klúrri dyggða-skreytingu að hætti forréttinda karl-femínista, að gerast sekur um einn helsta glæp karlrembunnar; útstroka konu og verk hennar og gera að sínum.“
Sólveig Anna segir að henni sé hreinlega misboðið:
„Mikið og táknrænt manspreading þarna í gangi hjá rithöfundinum. Sem kvenréttindakonu er mér auðvitað sárlega misboðið en sem connoisseur í yfirborðsmennsku megin-straums róttæklinganna er mér agalega mikið skemmt. Ég vona að þetta sé aðeins fyrsta greinin í heilum karl-femínista greinaflokki. Næsta grein gæti fjallað um hvernig Hallgrímur uppgötvaði hvað hann er góður maður og sú þriðja um félagslega gagnsemi þess að byggja upp nokkurskonar vörumerki um að vera einn af góðu mönnunum. Kven-hjarta mitt slær örlítið hraðar af tilhlökkun yfir lestrinum.“