Þorsteinn Auðunn Pétursson, maður á sjötugsaldri, hefur nú öðru sinni verið ákærður fyrir stórfelld skattalagabrot. Fyrir um tveimur árum var hann dæmdur í 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu á 125 milljóna króna sekt vegna brota í rekstri fyrirtæksisins Work North sem hann var í forsvari fyrir. Hafði Þorsteinn ekki staðið skil á staðgreiðslu skatta og virðisaukaskatti fyrir hluta af rekstrarárunum 2018, 2019 og 2020.
Work North ehf vakti landsathygli árið 2017 þegar félagið hlaut stærsta niðurrifsverkefni Íslandssögunnar, en Akraneskaupstaður fékk fyrirtækið til að rífa niður mannvirki Sementsverksmiðjunnar. Verkefnið gekk ekki áfallalaust fyrir sig og mistókst ítrekað að fella niður fjögur síló á lóð Sementsverksmiðjunnar með sprengjum. Kom í ljós að vanmetið hafði verið hve járnbent mannvirkið var.
Work North var lýst gjaldþrota árið 2023 og nam gjaldþrotið yfir 400 milljónum króna.
Þorsteinn er núna ákærður fyrir brot gegn skattalagabrotum og almennum hegningarlögum í rekstri fyrirtækisins WN. Er hann sakaður um að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti fyrir hluta af rekstrarárinu 2022 og nema vanskilin tæplega 20 milljónum króna.
Hann er ennfremur sakaður um að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir hluta af rekstrarárunum 2020, 2021 og 2022. Nema þau vanskil rúmlega 56 milljónum króna og meint skattsvik samtals nema rúmlega 76 milljónum króna.
Málið verður þingfest við Héraðsdóm Reykjavíkur þann 30. apríl næstkomandi.