„Við teljum að Kínverjar séu viðriðnir framleiðslu ákveðinna vopna í Rússlandi,“ sagði hann á fréttamannafundi í Kyiv.
DPA segir að Zelenskyy hafi einnig sagt að hann muni koma með nánari upplýsingar um þetta fljótlega.
Þessar ásakanir hans munu án vafa auka enn á spennuna á milli Úkraínu og Kína en töluverð spenna er nú þegar á milli ríkjanna í kjölfar þess að Úkraínumenn handsömuðu kínverska ríkisborgara sem börðust með rússneska hernum.
Kínverjar hafa ávallt haldið því fram að þeir séu hlutlausir hvað varðar stríðið en þeir eiga í nánu samstarfi við Rússa á ýmsum sviðum.
Úkraínumenn hafa ítrekað hvatt Kínverja til að nota áhrif sín til að koma á friði á milli Rússlands og Úkraínu.