Það að vera ríkasti maður heims þýðir ekki að maður lendi ekki í mótvindi og því hefur Musk fengið að kenna á að undanförnu. Hver slæma fréttin af annarri, fyrir Musk, hefur borist og má sjá teikn á lofti um að Musk sé ekki lengur stjarna í hirð Trump, öllu heldur megi líkja honum við stjörnuhrap á hinu pólitíska sviði.
Eins og kunnugt er sigraði Trump í forsetakosningunum í nóvember. Musk studdi vel við bakið á honum með fjárframlögum og kom fram á kosningafundum Trump. En þessi stuðningur hans við Trump hefur reynst honum dýrkeyptur þegar kemur að vinsældum meðal Bandaríkjamanna.
52,7% þeirra hafa neikvætt viðhorf til hans miðað við vegið meðaltal nýjustu skoðanakannana. Þessu skýrir Nate Silver, tölfræðingur og sérfræðingur í pólitískum skoðanakönnunum, í fréttabréfinu Silver Bulletin.
Aðeins 39,4% hafa jákvætt viðhorf til Musk.
Þegar Trump sigraði í kosningum höfðu um það bil jafn margir jákvætt viðhorf gagnvart Musk og neikvætt.
Eftir að hann varð mjög sýnilegur hluti af stjórn Trump og í forsvari fyrir hinn umdeilda niðurskurð í opinberum rekstri í krafti hagræðingarsveitarinnar DOGE, hafa vinsældir hans snarminnkað.
Hann er miklu óvinsælli en Trump sem er meðal minnst vinsælu forsetanna á síðari tímum.
Þá hefur DOGE verið í vandræðum. Ætlunin var að sveitin myndi ná fram sparnaði upp á 1 billjarð dollara fyrir 1. september næstkomandi en það svarar til um 15% af ríkisútgjöldum. Nýlega var þetta markmið lækkað í 150 milljarða dollara.
Þetta var ekki í fyrsta sinn sem markmiðið var lækkað því í upphafi stóð til að DOGE myndi skera niður um 2 billjarða í ríkisútgjöldum.
Spurningin er auðvitað hvort DOGE nái þessu nýja markmiði. New York Times bendir á í umfjöllun sinni að DOGE ýki sparnaðinn, sem náðst hefur, með því að taka reikningsskekkjur með sem og framtíðarútgjöld sem ekki hefur enn verið tekin endanleg ákvörðun um.
Tollastríð Trump hefur einnig komið illa við Musk. Þegar Trump hóf það sagðist Musk vonast til að Bandaríkin og ESB myndu afnema allan toll sín á milli. Washington Post sagði að Musk hafi reynt að fá Trump til að breyta um stefnu og falla frá tollunum. Musk lét síðan Peter Navarro, viðskiptaráðgjafa Trump, fá það óþvegið en hann er talinn aðalhöfundur tollastefnu Trump. Þetta er talið merki um vaxandi ágreining á milli Musk og Trump.
Hlutabréfin í Tesla lækka í verði og það eru slæm tíðindi fyrir Musk því hlutabréfaeign hans hefur tryggt honum efsta sætið á listanum yfir ríkasta fólk heims. Hlutabréfaverðið hefur lækkað í beinum tengslum við minnkandi vinsældir Musk.
Svo er spurningin auðvitað hvort dagar Musk sem eins aðalráðgjafa Trump eru taldir? Politico sagði í byrjun mánaðarins, á grunni upplýsinga frá ónefndum heimildarmönnum, að Trump hafi sagt mörgum í sínum innsta hring að Musk sé á útleið.