Bæjarstjórn Akraness hefur samþykkt að óska eftir allt að einum milljarði króna í skammtímalán frá Arion-banka.
Þetta var samþykkt samhljóða á fundi bæjarstjórnar í gær en hafði áður verið samþykkt í bæjarráði. Samkvæmt fundargerð verður lokagjalddagi 31. desember næstkomandi.
Í fundargerðinni segir að ástæðan fyrir þessari lántöku sé tekjufall í þeim gatnagerðartekjum sem vænst var á síðari hluta ársins 2024 og á sama tíma hafi verið í gangi viðamiklar og kostnaðarsamar framkvæmdir hjá sveitarfélaginu og verði áframhaldandi nú fram eftir vorinu.
Ekki koma fram skýringar á tekjufallinu af gatnagerðartekjunum í fundargerð bæjarstjórnar. Í umræðum á fundinum um þennan dagskrárlið kom fram að um síðustu mánaðamót hefði bærinn dregið á 550 milljóna króna yfirdráttarheimild sem hann hafi verið með undanfarin ár án þess að nýta hana að fullu. Líf Lárusdóttir bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins minnti bæjarfulltrúa sömuleiðis á að um síðustu mánaðamót hefði yfirdráttarheimildin enn fremur verið hækkuð.
Skammtímafjármögnunin sem samþykkt var nú kemur því væntanlega til viðbótar við yfirdráttarheimildina sem verið hefur til staðar undanfarin ár. Ragnar B. Sæmundsson bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins sagði þessa lántöku sýna fram á að staða fjármála bæjarins væri alvarleg.
Á bæjarstjórnarfundinum var einnig farið yfir ársreikning síðasta árs og hann samþykktur. Ljóst er að skuldir bæjarins fóru nokkuð vaxandi á síðasta ári. Hlutfall skulda A-hluta, sem er bæjarsjóður auk eignasjóðs, byggðasafns bæjarins og Fasteignafélags Akraneskaupstaðar, af rekstrartekjum var 121 prósent á síðasta ári en 95 prósent árið 2023.
Þegar horft er til skuldaviðmiðs A-hlutans fór staðan einnig versnandi en við útreikning á því er samkvæmt reglugerð heimilt að draga frá leiguskuldbindingar frá ríkissjóði, lífeyrisskuldbindingar og veltufé, sé það jákvætt, áður en hlutfall skulda af tekjum er reiknað. Þetta skuldaviðmið A-hlutans var 53 prósent árið 2023 en var 71 prósent í lok árs 2024. Flestar helstu tölur í ársreikningi A-hlutans sýna versnandi stöðu. Framlegð fyrir skatta og fjármagnsliði lækkaði sem og veltufé frá rekstri og vegna vaxandi skulda lækkaði eiginfjárhlutfall.
Rekstur Akraneskaupstaðar er því þyngri í vöfum en hann var 2023 og skuldir fara hækkandi. Akranes er þó alls ekki eina sveitarfélagið á landinu sem hefur þurft að glíma við þyngri rekstur.