Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur (ÍMR) standa fyrir miðbæjarplokki á laugardaginn.
Plokkað verður frá klukkan 10-14. Að plokki loknu verða veitingar í boði Brauð & co. Aðalfundur ÍMR hefst svo kl. 14.30 í félagsmiðstöðinni Spennistöðin, sem er við hlið Austurbæjarskóla.
„Með þessu viljum við efla samstöðu, félagsauð og samvinnu íbúa við að fegra miðborgina saman. Að plokki loknu er boðið í kaffi og meðlæti í félagsheimili íbúa, Spennistöðinni og síðan hefst aðalfundur ÍMR þar sem íbúar geta rætt málefni hverfisins“, segir í tilkynningu frá ÍMR.
Þeir sem hug hafa á að plokka geta mætt á miðvikudag eða fimmtudag milli kl. 16-18 að Laugavegi 56, þar sem plokktangir og ruslapokar fást gefins fyrir þá sem ekki eiga slík verkfæri sem nauðsynleg eru fyrir plokkið. Þar verður einnig hægt að skrá sig á svæði til að hreinsa.