Morgunblaðið fjallar um þetta í dag og vísar í tillögur sem Páll leggur fram í nýrri skýrslu fyrir Veðurstofu Íslands um Ljósufjallakerfið.
Eins og komið hefur fram hefur virkni á svæðinu aukist frá árinu 2021 og er skemmst að minnast skjálfta, 3,7 að stærð, sem varð síðastliðinn mánudag. Eldstöðvakerfið er nokkuð víðfeðmt og teygir sig frá Kolgrafafirði í vestri að Norðurá í Borgarfirði.
Samkvæmt frétt Morgunblaðsins í dag leggur Páll til að komið verði upp neti skjálfta- og aflögunarmæla á Snæfellsnesi og Mýrum. Hann telur að ýmis rök hnígi að eldgosavirkni á svæðinu og teiknar upp þrjár mögulegar sviðsmyndir.
Ein þeirra er að draga muni úr virkni án frekari tíðinda og önnur að skjálftavirkni haldi áfram án þess að kvika nái til yfirborðs. Sú þriðja er svo að eldgos brjótist út og er þá einkum horft til fjögurra svæða í kerfinu.
Bendir Páll á það, samkvæmt umfjöllun Morgunblaðsins, að óvíst sé hversu langur tími gæfist til að gefa út viðvörun um yfirvofandi gos við Grjótárvatn. Hugsanlega verði forboðatíminn svipaður og í Heimaeyjargosinu 1973, eða um 30 klukkustundir.