fbpx
Mánudagur 21.apríl 2025
Fréttir

„Við erum verkfæri sem Guð notar“

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 21. apríl 2025 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Við erum verkfæri sem Guð notar“ segir Svava Björg Mörk, framkvæmdastjóri samtakanna Teen Challenge á Íslandi. Svava Björg Mörk er lektor í menntunarfræðum við Háskóla Íslands og framkvæmdastjóri samtakanna Teen Challenge á Íslandi. Svava brennur fyrir því að bæði hjálpa og styðja fólk til nýs lífs og segir að hún reyni að horfi ekki fram hjá neinum, heldur horfist í augu við manneskju í neyð og hlusti á sögu hennar.

Samtökin eiga sér langa og merka sögu. Rætur þeirra má rekja til ársins 1958 í Bandaríkjunum. David Wilkerson var ungur prestur sem fór um götur New York-borgar til að segja ungu fólki sem var flækti í glæpi og fíkn, frá Jesú.  Hann skrifaði bókina Krossinn og hnífsblaðið um reynslu sína en Samhjálp gaf hana út í íslenskri þýðingu árið 1978. Enn í dag er hún vinsæl á bókasöfnum og mikið lesin. Árið 1962 stofnsetti David fyrsta Teen Challenge-athvarfið í New York en hann vann meðal meðlima götugengja í borginni og leitaðist við að hjálpa þeim til betra lífs. Árið 1995 voru svo stofnuð alþjóðasamtök. Í dag eru samtökin starfandi í hundrað og fjörutíu löndum og einkunnarorð þeirra eru: biðja, gefa, deila, fagna. Flestir er starfa innan samtakanna eru sjálfboðaliðar og boða fagnaðarerindið og markmiðið að gera alla menn frjálsa.  Hvernig kynntist þú Teen Challenge fyrst?

„Við byrjuðum fyrir fimm árum,“ segir hún. „Það kom til mín ung stúlka sem fékk þessa löngun í hjartað þegar hún var í meðferð í Hlaðgerðarkoti. Hún þráði að opna meðferð sem væri um leið biblíuskóli. Hún vissi ekki að til væru samtök er snerust um einmitt þetta og mörgum árum seinna kynnist hún Teen Challenge. Hún heitir Katrín Inga Hólmsteinsdóttir og er í stjórn samtakanna í dag. Hún var fyrsti framkvæmdastjóri TC á Íslandi en ég byrjaði  í stjórninni. Starfið og samtökin vöktu  strax áhuga hjá mér. Ég er sjálf búin að vera edrú í þrjátíu og fjögur ár og var á þessum tíma í Celebrate Recovery, eins og það heitir, en það eru kristileg tólf spora samtök. Starf Teen Challenge heillaði mig þess vegna. Við erum hluti af alþjóðasamtökum og fáum stuðning og styrk frá þeim, bæði andlega leiðsögn og þau kenna okkur og þjálfa til starfa.“

Greinin er úr nýjasta tölublaði Samhjálpar.

Svava og félagi hennar

Byggt á orði Drottins

Samkvæmt tölfræðinni er árangur af starfi ykkar ákaflega góður og meiri en gengur og gerist hjá annars konar meðferðarúrræðum. Hverju þakkið þið það?

„Það er drottinn Jesú. Þetta er byggt á orði Drottins. Trúin er sú að heilagur andi lækni. Við erum verkfæri sem Guð notar, og bænin. Áherslan er á að byggja upp lærisveina. Í því felst að það er alltaf maður á mann sem tekur við þér og kennir þér. Það má kalla þetta lífsleikni. Einstaklingurinn er tekinn og honum kennt hvað felst í því að takast vel. Leiðbeinandinn segir; ég hef gert þetta svona og ég ætla að kenna þér hvernig ég hef farið að. Þetta persónulega samband milli einstaklinga skiptir svo miklu máli og þessi félagslegi þáttur. Það er lögð mikil áhersla á hann.

Erlendis er starfinu skipt niður í nokkur tímabil. Menn byrja á fjögurra mánaða meðferð, svokallaðri „induction“. Síðan í átta mánaða meðferð sem er framhald og þar er bæði andleg meðferð og  „work therapy“ eða vinnumeðferð. Þetta snýst sem sé ekki bara um þetta líkamlega og andlega því margt af okkar fólki er annaðhvort dottið út af vinnumarkaði eða hefur ekki verið á vinnumarkaði. Og það að finna að þú sért að leggja eitthvað til samfélagsins, að þú sért þátttakandi breytir svo miklu. Skiptir öllu um hvernig þú upplifir sjálfan þig.

Fólk byrjar ekki í 100% vinnu heldur er vinnan hluti af meðferðinni. Með því öðlast fólk líka möguleikann á að fá meðmæli þannig að þegar þessu tólf mánaða tímabili lýkur eru sumir tilbúnir að fljúga úr hreiðrinu. Eftir að meðferð lýkur er boðið upp á framhaldsskóla þar sem fólk fær tólf mánaða þjálfun í að þjóna og getur eftir það annaðhvort farið að vinna inni í TC, leiða heimahópa eða sinna annars konar uppbyggingu. En áður en að því kemur er fjögurra mánaða starfsnám og þarna erum við sem sagt komin upp í tuttugu og átta mánuði sem fólk getur verið í skjóli TC og fengið stuðning til að byggja upp nýtt líf. Margir fara inn í TC og vinna áfram þar. Ég var nýlega úti í Kaliforníu og þar voru margir sem voru búnir að fara í gegnum ferlið og voru farnir að kenna öðrum hvernig hægt er að ná góðum árangri. En það fara líka margir áfram og inn í annað. Og það er meginmarkmiðið að byggja upp fólk sem fer út í lífið, inn í kirkjurnar og söfnuðina sem styðja við starfið. Markmiðið er ekki að fólk vinni bara fyrir TC heldur að það verði virkir þátttakendur í samfélaginu og kirkjunum.“

Eru flugvél með tvo vængi

En starfið snýr ekki bara að unglingum eða ungu fólki í vanda heldur er einnig til Adult Teen Challenge. Þið farið líka út á göturnar og ræðið við þá sem glíma við heimilisleysi og réttið hjálparhönd?

„Já, það er stundum sagt að við séum eins og flugvél með tvo vængi,“ segir hún. „Annar snýst um að boða fagnaðarerindið og segja frá Jesú og hinn um að byggja upp lærisveina. Ef við gerum ekki hvort tveggja er ójafnvægi á flugvélinni. Þá er ójafnvægi í líkama Krists. Við eigum að segja frá. Við vinnum til dæmis með þeim sem glíma við heimilisleysi hér á landi. Förum út á götu og mætum fólki þar. Agata Anna Sobieralska leiðir það starf hér. Hún fer á hverjum degi á Kaffistofu Samhjálpar og vinnur með fólki þar, keyrir það þangað sem það þarf að fara og aðstoðar á annan hátt. Þetta er mikilvægt í okkar starfi  því það að boða fagnaðarerindið felst ekki bara í því að ganga um með opna Biblíuna og spyrja: „Hefur þú heyrt um Jesú?“

Okkar hlutverk felst í því að vera birtingarmynd Drottins hér á Jörðu. Við spyrjum okkur reglulega: Hvað myndi Jesús gera í þessum kringumstæðum? Ef við sjáum einhvern sem á bágt myndi Jesú ganga fram hjá honum eða setjast niður og ræða við hann? Myndi hann byrja á að segja: „Ég get ekki talað við þig fyrr en þú ert búinn að gera þetta og þetta.“ Nei, hann myndi hlusta á sögu mannsins eða konunnar. Hann hlustar. Við vinnum þannig.“

Bjóða upp á sáluhjálp í tjaldi

Er eitthvað sérstakt á döfinni á næstunni á vegum samtakanna?

„Þann 1. júní í sumar, munum við opna 30 fm tjald í Laugardalnum. Tjaldið er hugsað til þess að taka á móti jaðarsettu fólki, þá sem glíma við heimilisleysi eða aðra, eins og t.d. gesti Kaffistofunnar. Þarna ætlum við að bjóða fallegt og hlýlegt umhverfi. Sólveig Katrín Jónsdóttir var lengi með þetta tjald og notaði í annars konar tilgangi en ætlar núna að tileinka Guði tjaldið.

Já, og svo við verðum með sumarmót, 12. til 15. júní og hefjum mótið á að halda samkomu með Samhjálp. Síðan er kennsla á föstudegi og laugardegi. Við fáum mjög góða kennara og trúboða frá Ameríku, góða gesti sem koma til okkar og meginmarkmiðið er að efla okkar fólk, bæði nemendur og þá sem hafa útskrifast og þá sem eru starfandi sjálfboðaliðar hjá okkur. Nú, og líka er mikilvægt að hittast og vera saman. Þetta eru næstu tvö verkefni fram undan og svo er ýmislegt í pípunum sem við erum að hugsa um og koma okkur áfram með.“

Og starfið mun halda áfram að þróast og víst er að engum verður í kot vísað í tjaldi Teen Challenge í sumar. Fyrstu kristnu söfnuðirnir héldu sínar messur í tjöldum svo segja má að hér sé byggt á gamalli hefð.

Um Teen Challenge

Á  heimasíðu Teen Challenge er að finna  góðar upplýsingar um samtökin og starf þeirra. Þar segir meðal annars:

Hver erum við 

Við í TC Ísland styðjum fólk í bataferli frá fíknivanda og hjálpum því að byggja upp heilbrigt líf í anda kristilegra gilda. Starfið okkar er hluti af alþjóðlegu Adult & Teen Challenge samtökunum, sem starfa í yfir 125 löndum.

TC Ísland eru samtök sem hafa verið starfrækt síðan 2020. Við erum tengd samtökum sem eru að störfum um allan heim og heita Teen Challenge eða Adult & Teen Challenge. Þar sem ekki er unnið með unglinga heldur aðallega 18 ára og eldri. Þessi samtök rekja uppruna sinn til þess að maður að nafni David Wilkersson fór út  á götur New York borgar til þess að segja ungu fólki, sem var flækt í glæpaklíkur og eiturlyfjaneyslu, frá Jesú. Þetta leiddi til þess að líf fjölda fólks tók gríðarlegum breytingum á stuttum tíma og hefur þetta skilað miklum árangri fyrir einstaklinga jafnt sem fjölskyldur og samfélagið í heild sinni út um allan heim. Samtökin hafa þróað hugmyndafræði sína og efni til vinnslu og eru vel metin í þeim 125 löndum sem þau eru starfrækt í.

Við byggjum hugmyndafræði okkar og námsefni bæði á Biblíunni og þeim ýmsum kenningum sem fram hafa komið síðustu ár í tengslum við fíknivanda og bataferli. Námsefnið er gott og víðtækt, það hjálpar fólki að öðlast bata við fíknivanda á hvaða sviði sem er. Við bjóðum upp á hagnýta kennslu sem nýtist í daglegu lífi og lexíur sem snúa að þvi að læra að nýju að takast á við lífið, tilfinningar og sársauka úr fortíðinni. Námskeiðin sem TC býður upp á fara annars vegar fram í gegnum efni sem gagnast fólki á göngu þeirra með Guði og hins vegar í ákveðna innri vinnu, þar sem tekist er á við hjartans mál. Við leggjum áherslu á að allt sem við gerum veiti nemendum færi á að rækta sitt samband við Guð, líkt og 11 spor AA samtakanna gerir grein fyrir. Markmiðið er ávallt að undirbúa nemendur fyrir lífið eftir skólann, líkt og hvernig hægt er að tækla verkefni dagsins án þess að hörfa aftur í gamla farið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Brotist inn í verslun og sjóðsvél stolið

Brotist inn í verslun og sjóðsvél stolið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dularfullt mál: Leita að þremur manneskjum eftir að bátur fannst mannlaus

Dularfullt mál: Leita að þremur manneskjum eftir að bátur fannst mannlaus
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sólveig Anna hjólar í Sóleyju Tómasdóttur og útskýrir hvers vegna hún vill ekki lengur kalla sig femínista – „Þannig upplifi ég það“

Sólveig Anna hjólar í Sóleyju Tómasdóttur og útskýrir hvers vegna hún vill ekki lengur kalla sig femínista – „Þannig upplifi ég það“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Þórður segir mjög mikilvægt að íslenska þjóðin sigri áróðursstríð útgerðarinnar – „Nú þarf að anda í kviðinn“

Þórður segir mjög mikilvægt að íslenska þjóðin sigri áróðursstríð útgerðarinnar – „Nú þarf að anda í kviðinn“
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Hrottaleg nauðgun á annan í jólum

Hrottaleg nauðgun á annan í jólum
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Landsnet hvetur starfsfólk til að tilkynna um lögbrot og ámælisverða háttsemi

Landsnet hvetur starfsfólk til að tilkynna um lögbrot og ámælisverða háttsemi