Tilkynnt var um andlát Frans páfa nú í morgun. Vibrögð við andlátinu streyma nú frá bæði þjóðarleiðtogum, trúarleiðtogum og almennum borgurum. Kaþólska kirkjan er næst fjölmennasta trúfélagið á Íslandi en er einkum skipuð fólki sem flutt hefur hingað frá kaþólskum löndum. Ljóst er þó að hvort sem fólk sé kaþólskt eða ekki að þá er um heimssögulegan viðburð að ræða og þó nokkrir Íslendingar hafa minnst páfa á samfélagsmiðlum og þá yfirleitt með hlýju.
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar er á vinstri kanti stjórnmálanna en kunni greinilega að meta áherslur páfans:
„Leitt að heyra – væn manneskja.“
Egill Helgason sjónvarpsmaður minnist páfa með spurningu:
„Var Frans ekki besti páfinn?“
Halla Signý Kristjánsdóttir fyrrum alþingismaður Framsóknarflokksins telur Frans hafa haft góð skilaboð fram að færa:
„Frans páfi látinn. Hann sagði í síðasta ávarpi sínu að friður væri ekki mögulegur nema að:
„Það getur ekki ríkt friður án trúfrelsis, hugsanafrelsis, tjáningarfrelsis og virðingar fyrir skoðunum annarra.“
„Góð skilaboð.“
Þórhallur Heimisson prestur og leiðsögumaður hefur verið viðstaddur messu hjá Frans:
„Þær sorglegu fréttir voru að berast að Fransiskus páfi væri fallinn frá. Við síðustu messu sína í gær, á páskadag, prédikaði hann fyrir friði og mannréttindum í heiminum eins og hann alltaf gerði. Og gegn vaxandi gyðingahatri. Hann var rödd kærleika í heimi sem er að tapa sér í stríðsæsingi. Sjálfur hef ég nokkrum sinnum verið við messu hjá honum og alltaf jafn magnað að hlusta á hann.“
Herdís Kjerulf Þorgeirsdóttir lögfræðingur og fyrrum frambjóðandi til embættis forseta Íslands telur alveg ljóst hvert merkasta framlag Frans páfa hafi verið:
„Frans páfi var talsmaður bágstaddra og opinskár í gagnrýni sinni á græðgi stórfyrirtækja og vaxandi ójöfnuð. Óheftan kapítalisma kallaði hann saur djöfulsins (dung of the devil). Hann skildi mikilvægi öflugrar umræðu, andófs og skarpskyggni og talaði fyrir því að kæfa ekki gagnrýnisraddir – það var kannski hans merkasta framlag.“
Valerio Gargiulo rithöfundur og lögfræðingur er fæddur og uppalinn á Ítalíu en hefur búið á Íslandi síðan 2012 og varð íslenskur ríkisborgari 2021. Hann minnist páfa með hlýju en eilítið blendnum tilfinningum þó og dregur í sinni færslu tíð Frans sem páfi vel saman:
„Páfi Frans er látinn. Hann lést í morgun, 88 ára að aldri. Fyrsti páfinn úr Jesúítareglunni, sá fyrsti frá Suður-Ameríku, og hann leiddi kirkjuna í 13 ár, ár sem einkenndust af umbótum, samræðu og umhyggju fyrir þeim veikustu. Ég man eftir fögnuði ömmu minnar og móður þegar hann var kjörinn. Vonin kviknaði um nýjan kafla: nútímalegri kirkju, nær fólkinu, opnari og mannúðlegri.