Þorlákur Axel Jónsson, kennari á Akureyri, segist lengi hafa velt fyrir sér svokallaðri Grafarvogsgremju sem þjóðin hefur ítrekað orðið vitni að. Nýlega hafi íbúi hverfisins skrifað grein þar sem þessi gremja var útskýrð – þetta sé í raun ótti efri millistéttar um að spillast af fólki í lægri stöðu í þjóðfélaginu.
Þorlákur skrifar grein í dag þar sem hann svarar Grafarvogsbúanum Davíði Má Sigurðssyni. Davíð skrifaði grein á dögunum þar sem hann sagði að í Grafarvogi búi „þokkalega mikið af efri og neðri millistétt“ en samt hafi hverfið mætt afgangi í Reykjavík. Davíð sagði blautan draum meirihlutans í borginni vera að reisa nú í Grafarvogi, líkt og í öðrum hverfum, „lattelepjandi lopapeysu paradís bíllausra“ og losa sig við öll græn svæði. Þetta eigi að gera í ósátt við íbúa sem hafi harðlega mótmælt þéttingu byggðar í Grafarvogi.
Þorlákur segir að grein Davíðs sé upplýsandi fyrir utanaðkomandi aðila eins og hann. Þjóðin fái gjarnan að heyra af uppþoti á íbúafundum í Grafarvogi sem jafnvel gangi svo langt að opinberir starfsmenn þurfa áfallahjálp.
„Íbúafundir þar sem kvótaerfingjarnir láta tilkynna að atvinnulíf byggðarlaga sé lagt í rúst svo þeir geti keypt sér aðeins dýrara hvítvín með humrinum komast ekki í hálfkvisti við fundarbræðina í Grafarvogi.“
Þessi efri millistétt í borginni kvartar svo undan snjómokstri sem Norðlendingum eins og Þorláki finnst merkilegt, sérstaklega á götum þar sem auðvelt er að vera á sumardekkjum allt árið.
„Með þeim orðum er ekki verið að hundsa vanda Grafarvogsbúa, en það þarf að læra að aka í snjó og til þess þarf snjóavetur og því er ekki hægt að stjórna. Öllum þykir okkur vænt um íbúa Grafarvogs og viljum að þau séu með okkur hinum í samfélagi. Efri millistéttin í Grafarvogi óttast að umferðarstíflan á þorpsgötunni nái alla leið til þeirra sjálfra og þurfi að taka strætó. Það segir sig sjálft, fólk í efri millistétt tekur ekki strætó.“
Davíð hafi eins talað um áætlanir um að byggja í Grafarvogi blokkir fyrir bíllausar barnafjölskyldur. Þorlákur telur þetta fordóma gagnvart verkafólki.
„Blokkir! Í slíku húsnæði er mögulegt að búi verkafólk. Þá er spillt hinni góðu stéttablöndu sem hinn stolti Davíð Már Sigurðsson segir okkur frá. Þarna gæti sest að eitthvert fólk sem á börn sem þurfa að ganga í skóla. Hvað þá?“
Þorlákur þakkar Davíði fyrir greinina. Nú geti þjóðin betur skilið þetta fyrirbæri sem kallast Grafarvogsgremja og virðist landlæg þar í hverfi.
„Um sé að ræða ótta efri millistéttarinnar við að spillast af fólki með lægri stöðu í þjóðfélaginu. Grafarvogsgremjan er þá eftir allt saman stéttahroki.“