Kona festist inni á salerni skemmtistaðar í miðborg Reykjavíkur í nótt. Reyndist illmögulegt að opna dyrnar að salerninu þar sem hurðin var mjög þung. „Lögregla rauf hurðina með samþykki eiganda staðarins og var konan frelsinu fegin,“ segir í dagbók lögreglu þar sem greint er frá málinu.
Greint er frá 20 manna hópi ungmenna sem voru með ólæti í anddyri Laugardalslaugar. Hópurinn var ekki á leiðinni í sund heldur inni að „veipa“ og með almenn leiðindi við starfsfólk. Starfsmaður laugarinnar gerði ítrekaðar tilraunir til að vísa hópnum út en í síðustu tilraun sló ein stúlkan í hópnum starfsmanninn einu sinni í bringuna. Þegar lögregla koma á vettvang voru ungmennin farin. Að sögn starfsmanns var þetta þekktur krakkahópur sem hefur vanið komur sínar við helstu verslunarkjarna borgarinnar.
Maður tilkynnti að nágranni hefði stolið kettinum hans. Á vettvangi kom í ljós að maðurinn var ekki búinn að prófa að banka upp á hjá nágranna hans sem reyndist síðan ekki vera heima. Engar frekari aðgerðir lögreglu voru viðhafðar á vettvangi.
Bíll fór út af veginum í Heiðmörk. Ökumaður reyndist ölvaður og undir áhrifum fíkniefna. Var hann handtekinn og vistaður í fangaklefa.