fbpx
Laugardagur 19.apríl 2025
Fréttir

ÍR beið ósigur gegn Reykjavíkurborg

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 17. apríl 2025 19:00

Mynd: Skjáskot/Já.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur staðfest þá ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar að íþróttafélagið ÍR skuli slökkva á LED skiltum, á vegum félagsins, á horni Breiðholtsbrautar og Skógarsels en félagið vildi ekki una ákvörðuninni og kærði hana til nefndarinnar.

Málavextir eru raktir í úrskurði nefndarinnar. ÍR og Reykjavíkurborg gerðu árið 2016 samkomulag þar sem meðal annars kom fram að unnið yrði að því í sameiningu að finna auglýsingaskilti, sem staðsett var á mótum Breiðholtsbrautar og Skógarsels, nýjan stað. Með umsókn árið 2021 óskaði ÍR eftir leyfi til að koma fyrir stafrænu skilti í stað þess flettiskiltis sem fyrir var ásamt því að skoðaður yrði möguleiki á að hækka skiltið eða koma því fyrir við mót Breiðholtsbrautar og Skógarsels/Stekkjarbakka.

Þeirri umsókn var hins vegar hafnað á grundvelli umsagnar skipulagsfulltrúa þar sem meðal annars var vísað til fyrir neikvæðrar afstöðu Vegagerðarinnar sem veghaldara. Var synjun byggingarfulltrúa kærð til úrskurðarnefndarinnar sem hafnaði kröfu um ógildingu með úrskurði 29. október 2021. Þrátt fyrir það var skiltinu breytt úr flettiskilti í stafrænt skilti.

Samtal

Haustið 2023, óskaði ÍR eftir samtali um staðsetningu og sýnileika hins umdeilda skiltis þar sem sýnileiki væri orðinn takmarkaður vegna trjágróðurs og ylli þar með félaginu tekjutapi þar sem leigutaki skiltisins væri ekki tilbúinn til að greiða fyrir leigu á því. Í umsögn skipulagsfulltrúa í janúar 2024, kom fram að ekki væru gerðar athugasemdir við að ÍR léti vinna að breytingu á deiliskipulagi til að heimila skilti innan lóðar, sambærilegu því sem væri til staðar við Breiðholtsbraut.

Í lok árs 2024 bárust borginni ábendingar um óþægindi vegna ljósmengunar af skiltinu. Óskað var eftir að ÍR léti framkvæma faglega ljósmælingu til að stilla skiltið og vísað þar um til samþykktar Reykjavíkurborgar um skilti frá 2020 þar sem væri kveðið á um hámarksbirtustig skilta og mestan leyfilegan ljóma með hliðsjón af staðsetningu. Sama dag svaraði félagið borginni og upplýsti að búið væri að lækka birtustig skiltisins.

Í janúar 2025 sendi byggingarfulltrúi borgarinnar ÍR bréf og tilkynnti að breyting á tveimur skiltum úr flettiskiltum yfir í LED skilti hefði verið byggingarleyfisskyld. Slökkva skyldi þegar í stað á skiltunum og ef því yrði ekki sinnt yrði lögregla kölluð til.

Skipulagsfulltrúi hafi ekkert sagt

Í kæru ÍR kom meðal annars fram að skiltin hefðu staðið á umræddum stað árum saman og væru mikilvæg tekjulind fyrir félagið. Vildi félagið meina að breytingin úr flettiskiltum yfir í LED-skilti hefði verið í fullu samræmi við samþykkt borgarinnar um skilti. Í samskiptum við skipulagsfulltrúa, vegna eftirfylgni samkomulagsins frá 2016 um að finna skiltunum nýjan stað, hafi skýrt komið fram að heimild væri fyrir skiltunum í deiliskipulagi og aldrei hefði nokkurn tímann verið nefnt að þörf væri á byggingarleyfi. Niðurstaðan hefði á endanum verið að félagið myndi vinna að breytingu á deiliskipulagi til að heimila færslu á skiltunum.

Borgin vildi í sínum andsvörum meina að sú samþykkt um skilti sem ÍR vísaði til, vegna breytingar á skiltunum úr flettiskiltum yfir í LED skilti, hafi ekki áhrif á kröfu í lögum um mannvirki og byggingarreglugerð um byggingarleyfi. Þörf sé á slíku leyfi þegar breyting af þessu tagi sé gerð. ÍR hafi sótt um slíkt leyfi en því verið hafnað með vísan til neikvæðrar umsagnar Vegagerðarinnar en samt sem áður hafi félagið látið breyta skiltunum. Byggingarfulltrúi borgarinnar hafi því verið í fullum rétti þegar hann hafi krafist þess að slökkt yrði á þeim.

Þarf að sækja um leyfi

Í niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála segir meðal annars að skiltin séu það stór að þau falli undir ákvæði laga um mannvirki og byggingarreglugerð. Í deiliskipulagi sé gert ráð fyrir flettiskilti á umræddum stað sem sé skammt frá Breiðholtsbraut sem sé stofnbraut.

Nefndin segir að í þeirri samþykkt borgarinnar um skilti sem ÍR vísi til komi meðal annars fram að heimilt sé að setja upp setja upp ný stafræn auglýsingaskilti við stofn- og tengibrautir, sem séu stærri en 10 fermetrar, ef að fyrir sé sambærilegt flettiskilti eða ef deiliskipulag heimili slík skilti. Þá komi einnig fram í samþykktinni að byggingarfulltrúi veiti leyfi fyrir skiltum og auglýsingum ef umsókn uppfylli ákvæði samþykktarinnar og gildandi skipulags. Þá komi einnig fram að sé skilti breytt, til dæmis úr stafrænu skilti í aðra gerð, þá þurfi að sækja um nýtt byggingarleyfi.

Nefndin segir vart hægt að skilja samþykktina öðruvísi að þótt heimilt sé í vissum tilfellum að breyta eldri skiltum í stafræn skilti þá verði að sækja um byggingarleyfi fyrir slíkum breytingum.

Nefndin segir einnig ljóst að skiltin tvö falli undir lög um mannvirki og séu því háð leyfi frá byggingarfulltrúa. Fyrir liggi að um sé að ræða LED skilti sem sett hafi verið upp í stað eldri flettiskilta eftir að umsókn um byggingarleyfi vegna þessara breytinga hafi verið hafnað.

Kröfu ÍR, um að ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar um að slökkt skyldi á skiltunum yrði ógild, var því hafnað.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Seyðfirðingar reiðir við Landsbankann – Banki í ríkiseigu eigi að þjónusta allt landið

Seyðfirðingar reiðir við Landsbankann – Banki í ríkiseigu eigi að þjónusta allt landið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gervigreindin aðstoðar 9 manna fjölskyldu Arnars við að lækka matarreikninginn – „Höfum við farið niður í 15–20 þúsund krónur á viku“

Gervigreindin aðstoðar 9 manna fjölskyldu Arnars við að lækka matarreikninginn – „Höfum við farið niður í 15–20 þúsund krónur á viku“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Zelenskyy heyrir Rússa hvísla þegar J.D. Vance öskrar

Zelenskyy heyrir Rússa hvísla þegar J.D. Vance öskrar
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Trump fjarlægði málverk af Obama og setti eitt af sjálfum sér í staðinn

Trump fjarlægði málverk af Obama og setti eitt af sjálfum sér í staðinn