28 ára gömul kona sem situr í einangrun eftir að áttræður faðir hennar lést á föstudag er sögð hafa beitt báða foreldra sína líkamlegu ofbeldi.
Vísir greindi frá því að eiginkona mannsins hafi hringt á Neyðarlínuna eftir að hann hneig niður snemma á föstudagsmorgun. Mun maðurinn hafa fengið fyrir hjartað. Hann var fluttur á Landspítalann og lést þar síðar um daginn.
DV greindi frá í gær og hafði eftir einstaklingi sem þekkir til fjölskyldunnar að samband dótturinnar við foreldra sína hafa verið stormasamt. Hafi það einkennst af yfirgangi dótturinnar, sem er 28 ára, við foreldra sína.
Sjá einnig: Harmleikurinn í Garðabæ: Hin grunaða sögð hafa átt í stormasömu sambandi við foreldra sína
Kunningi fjölskyldunnar úr hestasamfélaginu segist hafa verið vitni að því fyrir um mánuði síðan að dóttirin hafi ráðist á móður sína. Í samtali við Heimildina segist maðurinn hafa séð mæðgurnar sitja saman í bíl, móðirin undir stýri og manninum hafi virst sem dóttirin væri að faðma hana.
Þegar maðurinn nálgaðist bíllinn sá hann að dóttirin lét höggin dynja á móður sinni. Maðurinn segist þá hafa bankað á bílrúðu móðurinnar sem skrúfaði niður. Dóttirin hætti ofbeldinu samstundis. Móðurinni virtist nokkuð brugðið, og sagði manninum að allt væri í lagi þegar hann bauð fram aðstoð sína. Mæðgurnar keyrðu í burtu, en maðurinn tók eftir því að móðirin mætti síðar með sólgleraugu sem huldu áverka.
Maðurinn segir í samtali við Heimildina að atvikið hafi setið þungt í sér. Hann hafi verið hugsi en ráðvilltur um hvað skyldi gera og lýsir því þannig að foreldrar konunnar hafi verið hríðskjálfandi í kringum hana. Skömmu síðar ofbauð honum þegar hann sá móður konunnar, sem er á áttræðisaldri, á fjórum fótum inni í hestahúsinu að huga að reiðtygi á meðan dóttirin stóð aðgerðarlaus við hlið hennar. „Ég sagði þá við hana að hún yrði að sýna móður sinni meiri hlýju,“ segir maðurinn. Segir hann að dóttirin hafi hafnað því að vera annað en góð við móður sína og hafi hún síðan rokið í burtu inn á kaffistofu.
Maðurinn segir að honum hafi brugðið verulega vegna fregna af andláti föðurins, og að dóttirin væri í haldi lögreglu. Hann sagði það mikilvægt að hlúð yrði að móðurinni og haldið í öruggri fjarlægð frá dóttur sinni, til þess að tryggja öryggi hennar.
Annar hestamaður á landsbyggðinni hefur sömu sögu að segja og segist hafa verið vitni að ofbeldi konunnar gagnvart báðum foreldrum. Það atvik átti sér stað fyrir um einu og hálfu ári síðan, eða árið 2023.
„Ég heyrði öskur,“ segir maðuriinn og segist hafa séð dótturina lemja föður sinn með krepptum hnefa. Segir hann föðurinn hafa hniprað sig saman og ekki varist höggunum að öðru leyti en því að reyna að snúa sér frá. Maðurinn hljóp hratt að fólkinu en móðirin gekk á milli áður. Segir hann að dóttirin hafi þá slegið hana af sama offorsi og föður sinn.
„Þetta er hávaxin og sterk kona,“ lýsir maðurinn dótturinni. „Henni var mjög brugðið þegar hún sá mig,“ segir maðurinn og telur dótturina þannig hafa haldið að engin vitni væru að árásinni.
Maðurinn ráðfærði sig við lögreglumann vegna atviksins og segir hann að reglur hafi verið settar til að tryggja öryggi foreldranna þegar þau voru á bænum. Maðurinn segir það þó engan vafa leika á um að móðirin hafi orðið fyrir barðinu á ofbeldi síðar, hann hafi oft séð áverka á líkama hennar sem húnreyndi að hylja.
Báðir mennirnir sem Heimildin ræddi við eru ekki í vafa um að konan hafi í gegnum tíðina beitt báða foreldra sína líkamlegu ofbeldi, enda báðir verið vitni að því. Annar hefur rætt við lögreglu eftir andlát mannsins á föstudag.
Gæsluvarðhald yfir dótturinni rennur út í dag.