Ungur maður hefur verið sýknaður af nauðgunarákæru þrátt fyrir að vitni hafi verið á staðnum. Dómur féll í málinu þann 24. mars sl. í héraðsdómi Reykjaness.
Stúlkan og pilturinn voru úti að skemmta sér og enduðu heima hjá þeim ákærða ásamt vinkonu stúlkunnar. Öll þrjú lögðust upp í rúm í herbergi piltsins, sem bjó heima hjá foreldrum sínum í Kópavogi.
Stúlkan lýsir því svo að pilturinn hafi sagt vinkonunni að fara að sofa og svo hafi hann reynt að eiga frumkvæði að kynmökum. Stúlkan hafi þó beðist undan því, sagt að sér þætti óþægilegt að vinkona hennar væri þarna við hlið þeirra og eins hefði verið ungt barn í rimlarúmi í herberginu sem var vakandi og starði á þau.
Pilturinn hafi engu að síður haft við hana samfarir þrátt fyrir mótbárur hennar og þrátt fyrir að hún hafi ítrekað lýst því yfir að hún kærði sig ekki um samfarirnar og jafnvel farið að gráta.
Loks hafi stúlkunni svo tekist að ýta við vinkonunni og þær þá farið saman á baðherbergið þar sem þær hringdu á vin sem kom og sótti þær og skutlaði upp á neyðarmóttöku.
Pilturinn neitaði sök og sagði að samfarirnar hefðu verið með vilja beggja.
Vinkonan lýsti því svo að hún hefði ekki verið sofandi en frosin af hræðslu og hún hefði ítrekað heyrt vinkonu sína lýsa því yfir að hún væri samförunum ósamþykk og taldi skýrt að þarna hefði nauðgun átt sér stað.
Eins er í dóminum greint frá samskiptum stúlkunnar við vininn sem hún fékk til að sækja sig en hún greindi honum strax frá því að hún hefði orðið fyrir kynferðisbroti, væri hrædd og í miklu áfalli.
Eins var rætt við sálfræðing hjá áfallateymi Landspítala sem stúlkan hafði mætt 16 sinnum í viðtöl til á hálfs árs tímabili eftir atvikið sökum áfallastreituröskunar.
Ákærði breytti eins framburði sínum hvað sumt varðaði. Í yfirheyrslu lögreglu sagði hann að sonur sinn hefði verið sofandi inni í herberginu þegar stúlkan og vinkona hennar dvöldu þar. Fyrir dómi neitaði hann að barnið hefði verið inni í herberginu.
Móðir ákærða bar vitni fyrir dómi og sagði að barnið hefði verið inni í hennar herbergi þá nótt þótt það almennt svæfi í herbergi sonar hennar.
Athygli vekur að dómari fer yfir atvik máls og tekur fram að ósamræmis hafi að einhverju leyti gætt í framburði ákærða og tekur eins fram að það sé umdeilt að vinkonan var á svæðinu og varð vitni að atvikum máls og greindi frá því bæði fyrir dómi og hjá lögreglu að stúlkan hefði skýrt gefið til kynna að hún væri samförunum ósamþykk.
„Hafi brotaþoli meðal annars sagt við ákærða: „Stopp, ég vil þetta ekki“, auk þess sem vitnið kvaðst hafa greint „neitunarhljóð“ frá brotaþola. Sagði hún brotaþola hafa sagt sér þetta nægilega hátt og skýrt. Vitnið kvaðst þrátt fyrir þetta ekkert hafa aðhafst, enda hafi hún „frosið“, verið hrædd og sagði líkama sinn hafa lamast.“
Þetta skrifar dómari í niðurstöðukafla sínum og fer svo þaðan í eftirfarandi:
„Þegar horft er heildstætt til atvika allra, þar á meðal samskipta ákærða og brotaþola í aðdraganda samfaranna, verður að miða við að ákærði hafi haft réttmæta ástæðu til að ætla að brotaþoli hafi í fyrstu verið þeim samþykk, enda þótt engin ástæða sé til að efast um upplifun brotaþola á atvikum. Þá verður af framburði ákærða og brotaþola ekki annað ráðið en að ákærði hafi þá nær samstundis hætt samförunum.
Að mati dómsins þykir framburður brotaþola því ekki hafa þá stoð í gögnum málsins eða framburði vitna að það nægi til þess, gegn neitun ákærða, að ákæruvaldið hafi axlað þá sönnunarbyrði sem á því hvílir.“
Því var pilturinn sýknaður.