Árni Guðmundsson, félagsuppeldisfræðingur, skammar Knattspyrnusamband Íslands fyrir að styrkja ekki handbók um hvernig megi fjölga áhorfendum í kvennaboltanum. Þetta sé bók sem öll knattspyrnufélög landsins ættu að eiga.
„Stundum á maður varla orð,“ segir Árni í aðsendri grein á Vísi og vísar til þess að KSÍ hafi ekki styrkt handbók Guðbjargar Ýrar Hilmarsdóttur verðandi tómstunda- og félagsmálafræðings, „Fjölgum áhorfendum – Upplifunarbók“ um litla upphæð.
Bókin snýst um það hvernig megi fjölga áhorfendum í kvennaboltanum. Handbók sem að sögn Árna stenst bæði fag- og fræðileg viðmið.
„Handbókin er hagnýtur leiðarvísir fyrir íþróttafélög, skipuleggjendur og aðra hagsmunaaðila sem vilja bæta upplifun áhorfenda á leikjum og auka sýnileika kvennafótbolta,“ segir hann.
Segir hann furðulegt að KSÍ hafi ekki viljað styrkja bókina.
„Mér er tjáð að KSÍ sjái sér ekki fært að styrkja útgáfu á þessari frábæru handbók, eftir Guðbjörgu Ýr Hilmarsdóttur verðandi tómstunda- og félagsmálafræðing, um nokkra 10 þúsund kalla, sem er alveg stór furðulegt. Upphæð sem er bara brota brot af þeirri vinnu og kostnaði sem höfundur hefur lagt á sig og staðið undir. Að grípa ekki tækifærið og stökkva til þegar að svona bók rekur á fjörur KSÍ er ekki boðlegt. Þetta er bók sem öll knattspyrnufélög í landinu ættu að eiga,“ segir hann. „Ef KSÍ getur ekki styrkt svona verkefni þá er mitt ráð að fækka snittum og hætta vínveitingum á VIP svæði sambandsins og láta þá þúsund kalla sem þar sparast renna til útgáfunnar á þessari metnaðarfullu handbók og eða sambærilegar verkefna í framtíðinni. KSÍ og kvennaknattspyrnan, þar er svo sannarlega verulegt rými til framfara.“