Íslenskir feðgar voru í þyrlunni sem féll í Hudson ánna skömmu áður en slysið voðalega skeði. Sex manns létust í slysinu, fimm manna fjölskylda og flugumaðurinn.
Blaðið New York Times greinir frá þessu.
Rafn Herlufsson og 14 ára sonur hans voru í þyrlunni sem síðar um daginn brotlenti í Hudson ánni í New York á fimmtudag, 10. apríl. Um var að ræða þyrlu af gerðinni Bell 206L-4 Long Ranger IV sem var notuð til útsýnisflugs yfir borgina. Þyrlan splundraðist í sundur í loftinu eftir um 15 mínútna flug með flugmann og fimm manna fjölskyldu innan borðs og enginn komst lífs af.
Feðgarnir voru á ferðalagi um borgina í tilefni af því að sonurinn hafði fermst. Á þriðjudag fóru þeir á körfuboltaleik með atvinnumannaliðunum New York Knicks og Boston Celtics í Madison Square Garden og á fimmtudag í útsýnisflug um borgina.
Fengu þeir úthlutaðan tíma frá þyrlufyrirtækinu New York Helicopter og var tekin mynd af þeim fyrir flugið. En eins og fram hefur komið í fréttum hefur fyrirtækið verið harðlega gagnrýnt fyrir að hafa mynd af fjölskyldunni sem fórst í slysinu inni á vefsíðu þess í nokkra klukkutíma eftir slysið.
Þyrlan flaug mjög ört, allt að 18 ferðir á dag. Stundum voru ekki nema 3 mínútur á milli ferða. Rétt tími til þess að taka mynd og fara yfir öryggisleiðbeiningar.
„Við vorum með þétta dagskrá af New York hlutum til þess að gera í ferðinni,“ sagði Rafn við New York Times á fimmtudag. Hann hafði einu sinni áður flogið útsýnisflug með þyrlufyrirtækinu yfir New York en sonurinn var að fara í fyrsta skiptið. Flogið var yfir Frelsisstyttuna, One World Trade Center og fleiri kennileiti „stóra eplisins.“ „Ég elska þessa borg,“ sagði Rafn.
Nokkrum klukkutímum eftir slysið byrjuðu skilaboðum að rigna inn í símann hans. Þá áttaði hann sig á því að hann hafi verið í sömu þyrlu og hafnaði í ánni.
Fékk þetta sérstaklega mikið á son Rafns. „Það er erfitt að átta sig 14 ára á nálægðinni við dauðann,“ sagði Rafn.
Feðgarnir flugu heim á föstudag og Rafn vonaðist til þess að geta endað ferðina á jákvæðum nótum.
„Við eigum einn dag eftir í New York og ég er virkilega að reyna að láta þetta ekki yfirtaka þessa einstöku ferð okkar,“ sagði Rafn.