Sumarnámskeið barna í Kópavogi verða mun dýrari fyrir foreldra í ár en þau voru í fyrra. Minnihluti bæjarstjórnar gagnrýnir gjaldskrárhækkunina harðlega.
Ný gjaldskrá var samþykkt á fundi bæjarráðs Kópavogs í gær. Hækka sumarnámskeið barna mikið milli ára.
Verð fyrir sumarnámskeið í frístund árið 2025 verður 18.500 krónur fyrir vikuna en verðið var 12.100 krónur árið 2024. Það er 53 prósenta hækkun á milli ára. Matur er ekki innifalinn í verðinu og gert ráð fyrir að börnin komi með nesti á námskeiðið.
Verðið á smíðavöllunum hækkar meira. Í sumar verður verðið 18.500 krónur, það er 14.500 fyrir námskeiðið sjálft og 5.000 krónu kofagjald. Verðið í fyrra var 9.500 krónur. Það er tæplega 95 prósenta hækkun. Námskeiðin eru aðeins hálfan daginn.
Þá hafa verð fyrir sumarsmiðjur einnig hækkað, sem eru stök 2 klukkustunda námskeið.
„Undirrituð mótmæla harðlega hækkun gjaldskrár fyrir sumarnámskeið barna í Kópavogi um 53% til 105%,“ segir í bókun fulltrúa minnihlutans. Það er Samfylkingar, Pírata, Viðreisnar og Vina Kópavogs.
Bent er á að hækkunin sé í andstöðu við yfirlýsingu ríkisstjórnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga frá því í mars 2024 þar sem áhersla var lögð á að halda gjaldskrárhækkunum í hófi á samningstíma kjarasamninga. Sérstaklega varðandi barnafjölskyldur og fólk í viðkvæmri stöðu.
„Fyrirhuguð hækkun sumarnámskeiðsgjalda gengur gegn þessum markmiðum og felur í sér umtalsvert aukið fjárhagslegt álag á barnafjölskyldur í Kópavogi en skiptir litlu sem engu í tekjuöflun bæjarsjóðs,“ segir í bókuninni.
Í bókun meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks segir að athugasemdir hafi borist til menntasviðs varðandi sumarnámskeiðin. Það er að Kópavogsbær sé í beinni samkeppni við kirkjur og íþróttafélög.
„Þessar breytingar eru í samræmi við verðlagningu sumarnámskeiða nágrannasveitarfélaga,“ segir í bókun meirihlutans.
Þessari réttlætingu tók minnihlutinn ekki mark á. Kópavogsbær hafi boðið upp á ódýrari sumarnámskeið og þannig tryggt að öll börn hafi raunverulegt tækifæri til þátttöku í uppbyggilegu sumarstarfi, óháð fjárhagsstöðu foreldra þeirra eða forráðamanna.
Vildi minnihlutinn að málið yrði sent til umsagnar í ungmennaráði. Hlutverk þess væri að gæta hagsmuna barna og ungmenna í Kópavogi og þessi tillaga snerti hagsmuni þeirra með afgerandi hætti. Því var hins vegar hafnað af meirihlutanum.
„Gjaldskrárhækkun af þessari stærðargráðu getur haft í för með sér að sum börn, sérstaklega þau sem koma úr tekjulægri fjölskyldum, fái ekki tækifæri til að sækja sumarnámskeið. Aðgerðin getur því takmarkað aðgengi að frístundum sem eru í eðli sínu afar mikilvægar fyrir félagsfærni, öryggi og velferð barna yfir sumartímann,“ segir í bókun minnihlutans.