Örlygur Hnefill Jónsson, lögmaður og fyrrverandi varaþingmaður Samfylkingar, leggur til að sveitarfélögin Norðurþing og Þingeyjarsveit verði sameinuð. Þar með yrði til stærsta sveitarfélag landsins.
„Ég tel að við Þingeyingar ættum að sameina Norðurþing og Þingeyjarsveit í eitt sveitarfélag sem yrði þar með Íslands stærsta sveitarfélag frá ysta enda Flateyjarskaga og nánast að heimskautsbaug og allt suður að Vatnajökli,“ segir Örlygur í færslu á samfélagsmiðlum.
Norðurþing varð til árið 2006 við sameiningu Húsavíkurbæjar, Raufarhafnarhrepps, Öxarfjarðarhrepps og Kelduneshrepps.
Þingeyjarsveit varð til árið 2002 við sameiningu Ljósavatnshrepps, Bárðdælahrepps, Hálshrepps og Reykdælahrepps. Árið 2008 bættist Aðaldælahreppur við og Skútustaðahreppur árið 2022. Við síðustu sameininguna tók Þingeyjarsveit við keflinu af Múlaþingi sem stærsta sveitarfélag landsins, og þekur það 12 prósent Íslands.
Örlygur segir að vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga sé mikilvægt að styrkja byggð utan Reykjaness. Til að mynda í Þingeyjarsýslum.
„Hvergi á Íslandi og óvíða í heiminum væri annað eins safn náttúruundra og myndi þetta ásamt mikilli orku svæðisins efla og styrkja byggð utan Reykjaness og höfuðborgarsvæðisins sem nú er brýn þörf á vegna eldsumbrota sem geta staðið í hundruðir ára eins og var frá 950 til 1240,“ segir hann í færslunni.