Kærunefnd jafnréttismála hefur komist að þeirri niðurstöðu að karlmaður hafi orðið fyrir mismunun af hálfu Sýslumannsins á Norðurlandi vestra á grundvelli aldurs hans. Nefndin segir hins vegar að í þessu tilfelli hafi málefnalegar ástæður legið að baki mismununinni og því hafi ekki verið um brot á lögum að ræða.
Forsaga málsins er sú að maðurinn var árið 2009 ráðinn í fullt starf hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga. Árið 2018 var gert samkomulag við manninn um að vegna aldurs myndi hann fara í 49 prósent starf hjá stofnuninni.
Árið 2023 var stofnunin hins vegar lögð niður með lögum sem samþykkt voru á Alþingi. Samkvæmt lögunum átti Sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra að taka við öllum stjórnsýsluverkefnum stofnunarinnar. Í lögunum var ákvæði til bráðabirgða um að öllum starfsmönnum stofnunarinnar, sem uppfylltu skilyrði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nema forstjóranum skyldi verða boðið starf hjá Sýslumanninum á Norðurlandi vestra.
Manninum var hins vegar sagt upp starfi sínu hjá stofnuninni án þess að vera boðið starf hjá Sýslumanninum en hann var sá eini í starfsmannahópnum sem það átti við um. Þegar maðurinn óskaði eftir skýringum sumarið 2023 var honum tjáð, í svari sem barst ári síðar, að samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins væri opinberum starfsmönnum heimilt að starfa til næstu mánaðamóta eftir að þeir hefðu náð 70 ára aldri. Þar sem hann hefði náð þeim aldri lægi fyrir að hann uppfyllti ekki áðurnefnd brágðabirgðaákvæði sem sett voru í lög þegar Innheimtustofnun sveitarfélaga var lögð niður.
Í kæru sinni til kærunefndar jafnréttismála vildi maðurinn meina að það hafi falið í sér brot á lögum um jafnan rétt á vinnumarkaði að bjóða honum ekki áframhaldandi starf. Taldi hann sig uppfylla skilyrði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Honum hafi verið sagt upp en ekki á grundvelli þess að hann væri orðinn 70 ára og lögin legðu ekki þá skyldu á forsvarsmenn opinberra stofnana að segja starfsmanni upp sem náð hefði þessum aldri. Vildi hann sömuleiðis meina að í lögunum fælist ekki bann við því að ráða fólk til starfa eftir að það næði 70 ára aldri.
Sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra andmælti því að manninum hefði verið mismunað á grundvelli aldurs. Hann uppfyllti ekki ákvæði laga um aldurshámark opinberra starfsmanna og það hafi verið skilyrði þess að bjóða honum áframhaldandi starf þegar Innheimtustofnun sveitarfélaga var lögð niður.
Vísaði Sýslumaðurinn til þess að í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins hefðu verið ákvæði um hámarksaldur um árabil. Vera kynni að víkja megi frá reglunni í einhverjum tilvikum sé sérstakt tilefni til þess. Skyldi þá ráðningarkjörum breytt á þann veg að laun miðuðust eftirleiðis við unna tíma en ekki fast starf í tilteknu starfshlutfalli. Sagði Sýslumaður það til marks um að slíkum undantekningum væri almennt ætlað að vara tímabundið og í takmörkuðum mæli. Ljóst væri hins vegar að ekki hafi verið litið svo á að starfsfólk gæti byggt rétt til áframhaldandi ráðningar, eftir að hámarksaldri væri náð, á að heimilt væri að gera undantekningu frá meginreglunni. Þá hafi ekki verið litið svo á að stofnunum ríkisins bæri að bjóða starfsfólki sem náð hefur hámarksaldri áframhaldandi ráðningu á breyttum ráðningarkjörum.
Lagði Sýslumaðurinn ríka áherslu á að almennt væri það ekki í boði fyrir fólk að fá starf hjá stofnunum ríkisins eftir að það hefði náð 70 ára aldri. Manninum hefði ekki verið mismunað, þvert á móti hefði hann fengið sömu meðferð og almennt gerist í tilfelli starfsmanna ríkisins sem náð hefðu þessum aldri. Mismunandi meðferð á fólki eftir aldri sé heimil samkvæmt lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði búi málefnalegar ástæður að baki, sem hafi átt við í þessu tilfelli.
Kærunefnd jafrnréttismála segir í niðurstöðu sinni að það liggi fyrir að manninum hafi einum starfsmanna Innheimtustofnunar sveitarfélaga ekki verið boðið starf þegar Sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra tók alfarið við verkefnum hennar. Þar sem sú ákvörðun hafi verið byggð á aldri mannsins hafi það falið í sér mismunun á grundvelli aldurs samkvæmt ákvæðum laga um jafnan rétt á vinnumarkaði. Nefndin vitnar hins vegar í þann kjarasamning sem gilti um starf mannsins hjá stofnuninni og segir þar koma skýrt fram að starfsmenn skyldu láta af störfum í seinasta lagi þegar þeir yrðu 72 ára.
Nefndin segir það rétt hjá manninum að lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins kveði ekki á um að það sé skylt að segja starfsmönnum upp þegar þeir verði 70 ára. Ljóst sé hins vegar að lögin hafi verið túlkuð með þeim hætti að það sé meginreglan en heimilt væri að gera samninga um tímavinnu við starfsmenn sem náð hefðu þessum aldri en þeir gætu ekki verið í föstu starfi.
Það er því niðurstaða nefndarinnar að maðurinn hafi ekki upfyllt skilyrði laga, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, um hámarksaldur sem hafi verið forsenda þess að honum yrði boðið starf hjá Sýslumanninum á Norðurlandi vestra. Þar af leiðandi hafi málefnalegar ástæður, samkvæmt lögum um jafnan rétt á vinnumarkaði, legið að baki þeirri meðferð sem maðurinn varð fyrir vegna aldurs síns og því sé ekki hægt að fallast á að hann hafi orðið fyrir mismunun á grundvelli aldurs, í skilningi laganna.