„Við fengum starfsleyfi 2019 og í allan þennan tíma og síðan við opnuðum þá hefur aldrei neinn af hinu opinbera beðið um að sjá þau réttindi sem við erum stoltir af,“ segir hann í grein sem hann skrifar á vef Vísis.
Tilefni greinarinnar, að sögn Jakobs, er umræða um mál ungs manns, Ragnars Þórs Antonssonar, sem steig fram í viðtali við Vísi um síðustu helgi. Ragnar lauk sveinsprófi í framreiðslu árið 2023 en honum var nýlega sagt upp störfum á hóteli í Reykjavík þar sem hann var eini faglærði þjónninn. Hinir þjónarnir, sem allir eru erlendir og ófaglærðir, héldu vinnunni og voru þeir í lægri launaflokki.
Í tengslum við þetta mál segist Jakob vilja vekja athygli á vandamáli sem hann telur setja stórt spurningarmerki við meistaranám iðnaðarnema.
Jakob nefnir til dæmis að hann hafi fylgst með því fyrir um ári síðan þegar það opnaði fyrirtæki sem auglýsir sig sem bílaverkstæði.
„Ég frétti það frá eigandanum eftir að ég setti mig í samband við hann að þar væri enginn meistari í bifvélavirkjun en stálsmíðameistari ætlaði að skrifa upp á ef til þess kæmi, hann væri samt ekki starfandi þar. Þetta vakti upp miklar efasemdir hjá mér,“ segir hann og bætir við að hann hafi farið að kanna málið hjá sýslumanni og heilbrigðiseftirliti og þá hafi komið á daginn að verkstæðið væri komið með virkt starfsleyfi.
„Ég leitaðist eftir því hvort það hefði verið sýnt fram á meistararéttindi en það er ekki gert og þess ekki krafist. Það er bara kannað með mengunarvarnir og svo ætlast til að menn vinni í góðri trú og fylgi lögunum.“
Hann kveðst svo hafa kannað málið frekar og spurst fyrir um hvaða stofnun sæi um eftirlit á þessu. Svo segir hann:
„Vinnueftirlitið sem gaf mér hvað skýrast svar en þar er fylgst með réttingarverkstæðum en ekki neinum öðrum handiðnað.
Þar var vísað í lög um handiðnað og kemur þar skýrt fram að til að reka slíkt fyrirtæki eru kröfur gerðar um að starfandi meistari skuli vera.
15. gr að þá varðar það sektum…:
Ef maður rekur [handiðnað], 1) án þess að hafa leyst leyfi, eða leyfir öðrum að reka [handiðnað] 1) í skjóli leyfis síns.
Ef maður tekur að sér störf meistara, án þess að hafa leyst meistarabréf.
Ef maður rekur löggilta iðngrein, án þess að hafa meistara til forstöðu.
Ef maður kennir sig í starfsheiti sínu við löggilta iðngrein
Í grein sinni spyr Jakob hvers vegna menn fái starfsleyfi þegar þessum mikilvægu kröfum er ekki fylgt.
„Það er kannað hvort mengunarvarnir séu í lagi en ekki hvort þeir sem ætla fara þjónusta fólk hafi nokkuð vit á hvað þeir eru að gera. Að gera við bíla rangt getur haft mjög alvarlegar afleiðingar eins og valdið slysum á fólki eða miklu tjóni,“ segir hann og heldur áfram:
„Það er ekki kannað með þetta því það þarf að tilkynna mögulegt brot til lögreglu og þeir rannsaka hvort meistari sé á staðnum og hann uppfylli kröfur.“
Veltir hann fyrir sér hvort lögreglan hafi ekki allt annað betra að gera en að fylgja svona málum eftir.
„Eins og ferlið er núna eru og verða alltof mörg fyrirtæki sem starfa ekki innan laga um handiðnað í örugglega alltof mörgum greinum,“ segir hann og endar skrif sín á þessum orðum:
„Það væri gáfulegast fyrir mig að opna bílaverkstæði ólærður og vera sex árum á undan þeim sem eyddu tíma sínum í nám og tilheyrandi tekjumissi. Því það er alveg á hreinu að lögreglan hefur engan tíma í eftirfylgni á þessu og því þarf að breyta.“