Ný alþjóðleg rannsókn á íslensku grjóti gefur sterkar vísbendingar um fall Rómarveldis. Gefa rannsóknirnar til kynna að lítil ísöld hafi átt þátt í því.
Rannsóknin var unnin af vísindamönnum við Southampton háskóla, Drottningarháskólann í Kanada og Kínversku vísindaakademíuna. Það var teymið frá Southampton háskóla sem rannsakaði berg á vesturströnd Íslands og fann áhugavert grjót sem hafði borist langt að. Greint er frá rannsókninni í tímaritinu Geology.
Grjótið hafði borist með ísjökum sem bendir til þess að lítil ísöld hafi hafist í kringum 500 eftir krist. Stóð hún í um 200 til 300 ár.
Það var um þetta leyti sem vestrómverska heimsveldið féll, veldi sem hafði staðið í um þúsund ár og staðið af sér hverja krísuna á fætur annarri, svo sem mannskæðar drepsóttir og innrásir.
„Þegar kemur að falli Rómarveldis þá gæti þessi loftslagsbreyting hafa verið kornið sem fyllti mælinn,“ sagði Tom Gernon, jarðfræðiprófessor við Southamptonháskóla í viðtali við blaðið Southern Daily Echo.
Ísöldin er talin hafa orsakast af þremur öflugum eldgosum þar sem hafi myndast svo mikil aska að sólarljós komst illa til jarðar. Hafi þetta lækkað hitastigið, ekki síst á svæðinu í kringum Norður-Atlantshafið.
„Við vissum að þessir steinar væru eitthvað óvenjulegir því að þeir eru af allt annarri tegund en það berg sem finnst á Íslandi í dag, en við vissum ekki hvaðan þeir komu,“ sagði Christopher Spencer, aðstoðarprófessor við Drottningarháskólann í Kanada, sem leiddi rannsóknina.
Rannsóknarteymið greindi steinana með því að aldursgreina litla kristalla sem kallast sirkon innan í þeim.
„Sirkon er í rauninni tímahylki sem varðveitir mikilvægar upplýsingar, meðal annars hvenær það kristallíseraðist sem og úr hverju það er gert,“ sagði Spencer. „Með blöndu af aldursgreiningu og efnagreiningu er hægt að finna hvaðan af yfirborði jarðarinnar steinarnir komu, rétt eins og í meinafræði. Það sem við erum að sjá er mjög gott dæmi um hversu tengd loftslagskerfin eru.“
„Tímasetningin stemmir við tímabilið þegar var mikið um ísjaka sem brotnuðu af jöklum og ráku yfir hafið og á endanum bráðnuðu og dreifðu brotum og molum á fjörur langt í burtu,“ sagði Gernon.