Fjölmiðlamaðurinn Frosti Logason segist vongóður um að íslenskir vinstrimenn séu nú að stíga ofan af háum og velvakandi hestum sínum. Hann fer í nýjasta þætti hlaðvarpsins Harmageddon fögrum orðum um Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar, fyrir að tala af skynsemi og opna umræðuna um hvað svokallaður vókismi er meingallað fyrirbæri.
„Vá, hvað þetta er skemmtileg, gáfuð, greind, réttsýn kona, Sólveig Anna. Það er bara leitun að öðru eins á vinstri væng stjórnmálanna. Hún algjörlega ber höfuð og herðar yfir skoðanasystkini sín.“
Sólveig Anna lét rithöfundinn Hallgrím Helgason heyra það um helgina með eftirminnilegum hætti. Þau voru bæði gestir í þættinum Synir Egils á Samstöðinni á laugardaginn. Sólveig sagði þar að vókið væri ein mest óþolandi hugmyndafræði sem hægt væri að hugsa sér. Vinstri menn þyrftu að horfast í augu við þessa staðreynd, enginn hafi þolinmæði fyrir þessu lengur.
Hallgrímur kallaði Sólveigu þá Trumpista og Sólveig Anna benti á að þetta væri nákvæmlega það sem hún væri að tala um. Hún hefði sagt eitthvað sem Hallgrími, vókista, mislíkaði og þá er hún bara afskirfuð sem Trumpisti. Vókistar segjast vera talsmenn umburðarlyndis sem sé ekkert nema hræsni í ljósi þess hvernig þessi hópur tali um aðra sem eru með aðrar skoðanir eða kjósa að beita nálgun eða aðferðum sem ekki er að finna í hinni heilögu vöknunarbók.
Sjá einnig: Sólveig Anna urðar yfir woke-ið og Hallgrím í hressilegum orðaskiptum – „Woke er ömurlegt“
Þessi orðaskipti Sólveigar og Hallgríms settu allt á annan endann. Hvað þýðir að vera vók? Er Sólveig Anna, sósíalistinn, ekki vók? Er vók hugtak sem varðar það að vera meðvitaður um ójöfnuð og óréttlæti í samfélaginu eða er vók orð um þá sem beita aðra skoðanakúgun, fordæmingum og útilokunum? Er vók annað nafn yfir menntaelítuna sem lítur niður á þá sem völdu sér aðra leið en menntaveginn? Hvað snýr upp og hvað snýr niður og er hvítt nú orðið svart?
Sólveig var hin ánægðasta með viðbrögðin og taldi löngu tímabært að taka þetta samtal. Hún hefur boðað ítarlegri útlistun á því hvers vegna vók er óþolandi um páskana.
Frosti er hjartanlega sammála Sólveigu og segist trúa því að vinstrimenn eigi eftir að átta sig á þessu sama, þeim finnist kannski enn erfitt að kyngja því. Frosti telur á sama tíma að formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins, Gunnar Smári Egilsson, þurfi að fara að sjá í gegnum vókið. Gunnar Smári ritstýrir Samstöðinni og að mati Frosta er fréttaflutningur þar alltof vók. „Því þau hafa gengið inn í þessa formúlu einhvern veginn, halda að ef við ætlum að vera vinstrimenn þá eigum við að hafa þessa og þessa og þessa skoðun.“
Frosti bendir á að vinstrið þurfi að geta rúmað fjölbreyttar lífsskoðanir þó að hópurinn sameinist til vinstri í efnahagsmálum og í málefnum sem varða jöfnuð og annað. Ef vinstrið bara taki upp þessa afstöðu Sólveigar þá geti íslenskir hægrimenn farið að vara sig.
„Þá er mikið að óttast fyrir hægrið. Eins og ég segi, þá er vinstrið líklegt til þess að ná vopnum sínum á ný. En ég myndi frekar kjósa það að fá skynsama vinstristefnu, sterka skynsama vinstristefnu, heldur en þetta brjálæði sem hefur verið undanfarin ár,“ sagði Frosti og hélt áfram:
„Sólveig Anna gæti þess vegna bara farið í forsetaframboð núna og fengið minn stuðning. Þetta skipti svo miklu máli að fólk sé svona, ef þú ert að tala um að vókið sé bara orð yfir það að vera meðvitaður um misrétti? Sólveig Anna er meðvituð um hverslags misrétti og óréttlæti sem þetta vók hefur haft í för með sér og það er algjörlega stórkostlegt.“+
Frosti benti á að fleiri vinstrikonur hafi lagt orð í belg sem vert sé að nefna. Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, fjölmiðlakona sem hefur meðal annars verið ritari stjórnar Vinstri grænna í Reykjavík, hafi skrifað frábæran pistil. Þar talar hún um að landsmenn hafi vókað yfir sig. Falleg hugmynd hafi breyst í andhverfu sína þegar sjálfskipaðir réttlætisriddarar fóru að taka fólk af lífi fyrir minni og minni sakir.
Sjá einnig: Þóra segir að byltingin sé nú búin að éta börnin sín – „Við lentum í því að vóka yfir okkur“
Frosti var gáttaður þegar hann las þetta enda almennt þeirrar skoðunar að Þóra Kristín væri mjög vinstri sinnuð. „Samt með hausinn rétt skrúfaðan á og gerir sér grein fyrir hvað er rétt og hvað er rangt, sem að fjölmargir vinstrimenn hafa misst sjónar af í þessum tryllingi sem við höfum orðið vitni að á undanförnum árum.“
Frosti fjallar um aðra færslu þar sem kona lýsti því hvernig vók væri orðið að vopni. Hann minnir á að hann hafi nú fengið að finna fyrir því Heimildin fjallaði um hann á sínum tíma. „Þetta er notað til að þagga niður í gagnrýni, setja fólk í einhverja dilka og mála það upp sem eitthvert hatursfólk.“
„Ég get ekki annað en borið endalausa virðingu fyrir Sólveigu Önnu og hvernig hún hefur borið sig í öllum sínum baráttumálum á undanförnum árum á Íslandi. Algjörlega stórkostlegt hvernig hún er samkvæmt sjálfri sér og augljóslega mjög réttsýn og bara föst fyrir. Það er ekki hægt að bera annað en virðingu fyrir þessu.“
Sjá einnig: Sólveig gáttuð en fagnar siðfárinu – „Ég vissi ekki að andúð á woke væri svona svakalega hot take“
Frosti segist þó ekki hrifinn af því sem hann kallar marxískar skoðanir Sólveigar. Honum þykir marxisminn full skyldur vókinu. Þess vegna kom Sólveig honum svona á óvart. En kannski sé það í rauninni svo, þegar á botninn er hvolft, að Karl Marx var bara að fjalla um stéttarskiptingu í samfélaginu og að hugmyndum hans ætti ekki að jafna yfir á málefni menningarstríðs sem til kom löngu eftir hans dag.
Frosti dáist eins að Sólveigu fyrir að hafa haldið áfram að láta Hallgrím Helgason heyra það þegar hann reyndi á samfélagsmiðlum að lýsa yfir furðu sinni á óvæntri afstöðu verkalýðsforingjans. Frosti segist hafa fengið að heyra það síðustu daga frá nokkrum aðilum að þeir ætli nú að færa sig yfir til Eflingar bara út af Sólveigu.
„Hún er algjörlega frábær.“