Eins og kunnugt er skrifaði hún grein um málið á Vísi í gær sem vakti þó nokkra athygli og í dag er hún í viðtali við Morgunblaðið þar sem hún fer nánar yfir sína hlið á málinu.
Sjá einnig: Tengdamamman stígur aftur fram – „Þetta viðurkenndi Ásthildur Lóa þegar hún hringdi í mig“
„Mér er mjög misboðið, að hún skuli standa í pontu Alþingis og eiginlega segja mig ljúga,“ segir hún í samtali við blaðið. Vísar Ólöf til þess þegar Kristrún rengdi orð hennar um að hún hefði óskað eftir fullum trúnaði þegar hún bað um fund með forsætisráðherra vegna Ásthildar Lóu.
„Ég vil helst að hún standi í pontu Alþingis og biðji mig afsökunar þar,“ segir Ólöf við Morgunblaðið.
Í grein sinni á Vísi í gær sagði Ólöf það liggja fyrir að hún hringdi í forsætisráðuneytið og það hafi hún gert í þeim tilgangi að óska eftir upplýsingum um hvort farið væri með erindi sem þangað berast í gegnum tölvupóst sem trúnaðarmál.
„Svarið var já. Ég vildi að það væri algjörlega öruggt og spurði aftur, því ég vildi ekki að þessar upplýsingar færu um borg og bý. Aftur staðfesti starfsmaðurinn það. Símtalið var fjögurra mínútna langt – hvað annað átti ég að ræða í þessar fjórar mínútur við starfsmann í símsvörun?“ sagði Ólöf.