Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa og Neytendastofa telja ljóst að eigi nefndin og stofnunin að sinna betur hlutverki sínu og styrkja stöðu neytenda eins og stefnt sé að, í stefnu í neytendamálum til 2030 sem nú er til meðferðar á Alþingi, sé þörf á auknu fjármagni til þeirra beggja úr ríkissjóði. Misjafnt er hversu vel samtök sem gæta hagsmuna atvinnurekenda taka í slíkar hugmyndir og hvernig þau telja best að haga umgjörð stofnana hins opinbera á sviði neytendamála.
Stefnan er í formi þingsályktunartillögu sem Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra lagði fram fyrir um 4 vikum síðan.
Í umsögn kærunefndar vöru- og þjónustukaupa er vitnað í ákvæði í stefnunni um að til standi að gera heildarendurskoðun á löggjöf á sviði neytendamála með það fyrir augum að efla réttindi neytenda, með áherslu á úrlausn ágreiningsmála. Segir í umsögninni hins vegar að með tilkomu nefndarinnar hafi staða neytenda gagnvart seljendum vöru og þjónustu styrkst verulega.
Nefndin bendir aftur á móti á að nefndarmenn hafi margoft komið því á framfæri að nefndin hafi lengi verið vanfjármögnuð. Hún hafi til að mynda þurft að hætta störfum í nóvember á síðasta ári þar sem fjármagn þess árs hafi verið uppurið. Í umsögninni segir að umfang verkefna nefndarinnar fari sífellt vaxandi. Nýjum málum hafi fjölgað á síðasta ári, frá 2023, og hafi verið 177. Sömuleiðis hafi nefndinni verið falin ný verkefni sem hún hafi tekið við af Samgöngustofu og kærunefnd fasteignasala.
Segir nefndin að þrátt fyrir aukin fjölda mála og að verkefnum hafi verið bætt á hana hafi hún ekki fengið meira fjármagn. Vitnað er í umsögninni til ákvæða áætlunarinnar um að efla eigi kærunefndir á sviði neytendamála og bætt við að það muni ekki ná fram að ganga þegar kemur að kærunefnd vöru- og þjónustukaupa nema hún fái nægilega mikið fjármagn til að leysa úr þeim málum sem neytendur leiti með til hennar.
Í umsögn Neytendastofu um áætlunina segir að stofnunin hafi þurft að sníða verkefnum sínum þröngan stakk vegna skorts á fjárheimildum, þrátt fyrir aukið umfang verkefna og aukið flækjustig þeirra. Því telji stofnunin þörf á að hún sé styrkt fjárhagslega og henni þannig gefið tækifæri til þess að geta til dæmis sinnt leiðbeiningar- og rannsóknarhlutverki sínu betur en nú sé mögulegt. Stofnunin fagnar því að í þingsályktunartillögunni komi fram að stofnanaumgjörð neytendamála skuli styrkt í þágu neytenda en bendir á að í tillögunni komi lítið fram um hvernig eigi nákvæmlega að fara að því.
Ein opinber stofnun sem sýslar töluvert með mál er snúa að neytendum, Samkeppniseftirlitið, hefur ekki veitt umsögn um stefnuna enn sem komið er en stofnunin er meðal þeirra sem allsherjar- og menntamálanefnd þingsins, sem hefur málið til meðferðarl, mun hafa sent beiðni um umsögn.
Samtök sem mæla fyrir munn atvinnurekenda taka eins og áður segir misjafnlega í sínum umsögnum í nauðsyn þess á að auka fjármagn til stofnana og kærunefnda á sviði neytendamála og hafa misjafnar hugmyndir um hvernig stofnanaumgjörð hins opinbera á sviði málaflokksins eigi að vera.
Félag atvinnurekenda segir meðal annars í sinni umsögn um stefnuna að það sé áhyggjuefni að hugmyndir í tíð síðustu ríkisstjórnar um að sameina Neytendastofu og Samkeppniseftirlitið hafi ekki verið slegnar út af borðinu. Það sé heppilegast og auki skilvirkni að hafa eftirlit með samkeppni og neytendamálum í tveimur mismunandi stofnunum. Félagið segist einnig taka undir þau ákvæði í stefnunni að tryggt verði að stjórnvöld á sviði neytendamála geti uppfyllt lögbundin verkefni sín með fullnægjandi og sjálfstæðum hætti. Þá leggi félagið áherslu á að eftirlitsstofnanir á sviði neytenda- og samkeppnismála séu vel fjármagnaðar enda sé það bæði í hag fyrirtækja sem og neytenda. Telji félagið að hætt sé við að þessi markmið verði fyrir bí ef sameina eigi Neytendastofu og Samkeppniseftirlitið.
Við töluvert annan tón kveður í umsögn Viðskiptaráðs um stefnuna. Þar er lögð áhersla á að ekki hafi farið fram mat á kostnaði við hana. Gagnrýnir ráðið áherslu í stefnunni á aukin fjárútlát til frjálsra félagasamtaka og eftirlitsstofnana.
Ráðið segist ekki gera athugasemdir við markmið um styrka stofnanaumgjörð á sviði neytendamála en telji hins vegar rétt að benda á að einfaldasta leiðin að því markmiði væri að sameina stofnanir á sviði neytendamála og samkeppnismála, gagnstætt því sem Félag atvinnurekenda vill gera. Segir ráðið að með því að sameina Samkeppniseftirlitið, Neytendastofu og Fjarskiptastofu megi stuðla að betri nýtingu skattfjár, minni skörun og hagfelldari framkvæmd.
Samtök verslunar og þjónustu fjalla ekki í sinni umsögn um fjárframlög ríkisins til stofnana og kærunefnda á sviði neytendamála en taka undir með Viðskiptaráði að heppilegt væri að sameina þær stofnanir ríksins sem sinna neytenda- og samkeppnismálum.
Ljóst er því að á meðan kærunefnd og stofnun á sviði neytendamála kalla eftir meira fjármagni eru skoðanir skiptar meðal hagsmunasamtaka atvinnurekenda um hvernig haga eigi stofnaumgjörð í þessum málaflokki til framtíðar og hversu mikilvægt sé að auka fjárframlög ríkisins til neytendamála.