Garðabær hyggst lækka hámarkshraða á alls 34 vegarköflum í sveitarfélaginu. Er þar með fylgt fordæmi Reykjavíkur, Hafnarfjarðar og Kópavogs sem hafa þegar lækkað hámarkshraða víða.
Á fundi bæjarráðs í dag var verkfræðiskýrsla um lækkun leyfilegs hámarkshraða kynnt og umhverfissviði falið að gera tillögur að lækkun í Garðabæ með vísan í niðurstöður skýrslunnar.
Tilgangurinn er einkum að ná fram fækkun slysa, sérstaklega á óvörðum og yngri vegfarendum. Það sé mat ráðgjafa að ávinningurinn sem felst í auknu umferðaröryggi sé mikilvægari en sú staðreynd að aksturstími geti aukist.
Alls er um 34 vegarkafla sem sveitarfélagið rekur, ekki Vegagerðin. Algengt er að hámarkshraði verði lækkaður úr 50 km/klst í 40, eins og gert hefur verið í nágrannasveitarfélögum. En einnig er um annars konar lækkanir, svo sem úr 30 km/klst í 15 og úr 70 km/klst í 50.
Í skýrslunni kemur fram að 40 slys hafi orðið á umræddum vegarköflum. Samfélagslegt tjón þeirra er metið um 620 milljónir króna á ári. Gert er ráð fyrir að hægt yrði að fækka slysum niður í 23 á sama tímabili, eða um tæplega 5 á ári. Sparnaðurinn sé 300 milljón krónur á ári.