fbpx
Þriðjudagur 08.apríl 2025
Fréttir

Þóra segir að byltingin sé nú búin að éta börnin sín – „Við lentum í því að vóka yfir okkur“ 

Ritstjórn DV
Mánudaginn 7. apríl 2025 16:03

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, fjölmiðlakona og upplýsingafulltrúi, segir að woke- og metoo-byltingin hafi étið börnin sín. Okkur hafi hreinlega tekist að „vóka yfir okkur.“

Fjölmiðlakonan bregst þarna við umræðu sem hófst um helgina eftir að Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Hallgrímur Helgason rithöfundur tókust á í þættinum Synir Egils á Samstöðinni.

Þóra skrifar á Facebook að í upphafi byltingarinnar hafi þetta verið jákvætt afl.

„Eins hvers staðar í baksýnisspeglinum grillir í upphaf woke tímabilsins og meToo byltingarinnar sem jákvæðs afls, valdeflingu þar sem að sjónir beindust að mannréttindum svartra, lesbía, homma, transfólks og annarra útsettra jaðarhópa, kynþáttafordómum, kynferðislegu ofbeldi og kúgun.

Og það var mikilvægt.

Þeir sem áður höfðu enga rödd, fengu rödd, vald og áhrif, skiluðu skömminni og köstuðu af sér hlekkjunum.“

Hungruð bylting

Svo hafi mannlegt eðli og markaðshyggja séð tækifæri í þessari byltingu og sífellt þurfti meira til að kynda bálið.

„Fljótlega sigraði markaðshyggjan og ýmislegt smálegt í mannlegu eðli þessi verkfæri. Þeir voru fyrst hengdir út sem höfðu í skjóli ríkjandi kerfis, komist upp með að nauðga og meiða, kúga og arðræna eða smána minnihlutahópa og halda þeim kerfisbundið niðri.

En brennan logaði glatt en það þurfti meira til að halda bálinu við.

Allskyns „áhrifavaldar“ tóku að sér, sjálfum sér til dýrðar, að vera böðlar á samfélagsmiðlum,
Fleiri og fleiri fengu að kenna á því fyrir æ minni eða óljósari sakir. Fjölmiðlar nutu góðs af, stjórnmálin hrukku í gírinn enda var þetta bæði samfélagslega viðurkennt en síðan var þetta líka sniðugt tæki til að koma pólitískum andstæðingum fyrir kattarnef sem og samherjum sem þvældust fyrir á leið upp metorðastigann.“

Söguburður dyggð og refsingar án dóms og laga

Þóra segir að um tíma megi tala um ógnarstjórn góðmennsku. Fólk þurfti að passa sig að tala ekki af sér og passa hvaða fólk það umgekkst. Nornaveiðar fóru af stað og fólki slaufað fyrir smávæglega hluti. Dómharka og hræsni einkenndi umræðuna.

„Hægri menn náðu fljótlega vopnum sínum og ákváðu að taka virkan þátt í brennunni enda fátt skemmtilegra en að sjá pólitíska andstæðinga sína, svíða rasshárin hver af öðrum, fyrir að hafa mistigið sig á hinum hála vegi dyggðarinnar, ýmist í núinu eða fjarlægri fortíð.

Siðfræðingur Morgunblaðsins varð nánast fjölmiðlastjarna á einni nóttu enda duglegur að róta í sorpinu.

Mitt í þessu öllu duttu svo þeir flokkar út af þingi sem álitu sig vera róttækar raddir í ýmsum mannréttinda- og jafnréttismálum.“

Staðan varð loks sú að áhrifavaldarnir voru farnir að kasta hverjum öðrum á bálið og þeir sem gagnrýndu brennurnar áttu yfir höfði sér fordæmingu. Meira að segja Sólveig Anna hafi nú verið kölluð Trumpisti og mannhatari bara fyrir að gagnrýna harðasta vókið. Þóra segir það kaldhæðnislegt í ljósi baráttu Eflingar fyrir því að valdefla þá hópa sem hafa orðið undir í samfélaginu.

„En byltingin er því miður búin að grilla og éta börnin sín í heiminum þar sem söguburður er dyggð og refsingar án dóms og laga líka.“

Vókuðum yfir okkur

Þetta hafi valdið því að unga fólkið er í dag dómharðara og lengra til hægri en nokkru sinni áður. Hluti þessa hóps trúir ekki lengur á lýðræði. Þóra minnir á að kúgun og ofbeldi leiðir af sér meira ofbeldi og kúgun, alveg sama hver heldur á vendinum og hvort sá tilheyri hópi góða fólksins eða því vonda. Vók hafi verið falleg hugmynd í kjarnann en átti aldrei að snúast um slaufun, kúgun og refsingu.

„Vegna þess að það býður heim, öfgum, hræðslu og hættulegri skoðanakúgun sem við sjáum hin nýju fasísku öfl vera að nýta sér til framdráttar.

Við lentum í því að vóka yfir okkur.“

Þóra bendir á að afmælisbarni dagsins, Megas, hafi verið slaufað árið 2021. Þar með veigri margir sér við því að fagna þessum degi. Hún lýkur færslu sinni með því að vísa í texta Megasar, Pæklaðar plómur. Textinn sé umhugsunarefni þó hann hafi verið skrifaður löngu fyrir vók-byltinguna.

„þú hjálpar ekki neinum
með að horfa bara á hann
það hefur engin áhrif
þótt þúeflaust meinir vel
og eins er víst þú nálgast ekki
neinn með því að flá hann
þú nærð engum með góðu móti
þannig út úr skel

Þú hjálpar ekki neinum
með að vera bara á verði
vörnin reynist haldlaus
og hún gjörir enga stoð
því þú hugsar öll þín ráð
undir hangandi sverði
og hefur þér til skjóls
þessa götóttu voð“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Bændur fá stuðning eftir kuldakastið síðasta sumar

Bændur fá stuðning eftir kuldakastið síðasta sumar
Fréttir
Í gær

Friðrik Ólafsson er fallinn frá

Friðrik Ólafsson er fallinn frá