Friðrik Ólafsson, fyrsti stórmeistari Íslendinga í skák er fallinn frá, 90 ára að aldri. Hann andaðist föstudaginn 4.apríl eftir skammvin veikindi.
Friðrik fæddist 26. janúar 1935 í Reykjavík, sonur hjónanna Ólafs Friðrikssonar, skrifstofumanns, (1905 – 1983) og Sigríðar Á. D. Símonardóttur húsmóður (1908 – 1992). Friðrik var yngstur þriggja systkina en tvær eldri systur hans eru Margrét, fædd 1930, og Ásta, fædd 1932.
Friðrik var sannkallað undrabarn í skák og var fyrsti íslenski skákmaðurinn sem náði alþjóðlegum frama í íþróttinni. Það var ekki til siðs að börn væru að tefla á þessum árum en augljósir hæfileikar Friðriks urðu til þess að hann fékk undanþágu til keppni og framfarnir voru hraðar. Hann varð fyrst Íslandsmeistari í skák árið 1952, þá aðeins 17 ára gamall, og fljótlega fór hann að láta að sér kveða á erlendum vettvangi þrátt fyrir að samgöngur væru erfiðar. Til að mynda þurfti Friðrik í einhver skipti að fá far með fiskiskipum til þess að komast á skákmót erlendis.
Árið 1956 var Friðrik síðan útnefndur alþjóðlegur meistari í skák eftir frábæra frammistöðu á skákmóti í Hastings í Englandi og tveimur árum síðar, árið 1958, var hann útnefndur stórmeistari í skák, fyrstur Íslendinga.
Á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar öðlaðist Friðrik keppnisrétt í mörgum af sterkustu skákmótum heims, stóð sig iðulega framúrskarandi vel og varð sannkölluð þjóðhetja. Íslendingar fylltust innblæstri og stolti yfir því að Friðriki skyldi takast það að komast í fremstu röð í heiminum þrátt fyrir að koma frá litlu einangruðu landi.
Einn glæsilegasti árangur Friðriks var að vera einn af sex skákmönnum sem komust áfram úr Millisvæðamótinu í Portoroz árið 1958 og komust þar með í átta manna áskorendamót þar sem teflt var um réttinn til að skora á rússneska heimsmeistarann Mikhail Botvinnik. Í áskorendamótinu tóku meðal annars þátt fjórir skákmenn sem höfðu orðið eða urðu síðar heimsmeistara í skák, þeir Mikhail Tal, Vasily Smyslov, Tigran Petrosian og ungur Bandaríkjamaður að nafni Robert J. Fischer.
Varð honum og Friðriki vel til vina og héldust þau vinabönd út örlagaríka ævi Fischer.
Í keppni þessara átta bestu skákmanna heims varð Friðrik að lokum í sjöunda sæti en ljóst var að hann átti allskostar við þá bestu í veröldinni í skák.
Á áttunda áratugnum dró Friðrik sig smám saman úr virkum keppnisferli og fór út á vinnumarkaðinn með lögfræðipróf sitt að vopni. Lengst starfaði hann sem skrifstofustjóri Alþingis við góðan orðstír.
Afskiptum af skákinni var þó ekki lokið en árið 1978 hlaut Friðrik þann heiður að vera kosinn forseti FIDE, Alþjóðaskáksambandsins (FIDE), og gegndi því starfi í eitt kjörtímabil eða til ársins 1982.
Friðrik hlaut margskonar viðurkenningar fyrir afrek sín. Meðal annars hlaut hann stórriddarkross Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1980 og þá var hann aðeins sjötti einstaklingurinn sem var útnefndur heiðursborgari Reykjavíkur árið 2015. Sama ár var hann útnefndur heiðursfélagi FIDE.
Þá hafa fjölmörg mót og viðburðir verið haldin Friðriki til heiðurs. Næstkomandi miðvikudag hefst til að mynda Alþjóðlega Reykjavíkurskákmótið í Hörpu sem í ár var tileinkað 90 ára afmæli Friðriks og eru um 430 keppendur, frá öllum heimshornum, skráðir til leiks. Markmiðið var að Friðrik mynda leika stórt hlutverk við setningu mótsins en örlögin höfðu annað í hyggju.
Eftirlifandi eiginkona Friðriks er Auður Júlíusdóttir, fædd 1941. Þau eignuðust tvær dætur, Bergljótu, sem fædd er árið 1962, og Áslaugu sem fædd er árið 1969.